Um 20 aðilar selja lyf í lausasölu á Íslandi en tvær keðjur hafa yfirgnæfandi stöðu á markaðinum, þ.e. Lyf og heilsa og Lyfja, sem reka apótek undir sömu nöfnum ásamt því að vera með önnur vörumerki undir sínum hatti. Að fráskyldum þessur tveimur risum eru flest hin apótekin rekin af sjálfstæðum lyfsölum. Lyfjamarkaðurinn á Íslandi hefur einkenni fákeppnismarkaðar þar sem tveir stórir aðilar ráða markaðinum og aðgangshindranir eru frekar miklar.

Veltan að dragast saman

Lyfjamarkaðurinn er frábrugðin öðrum smásölumörkuðum að því leyti að lyfjaverð er fast. Lyfjastofnun ákveður hámarksverð og hámarksafslátt sem má veita frá því verði. Lyfsalan skiptist svo í tvo flokka, þ.e. lyfseðilsskyld lyf og lausasölulyf. Óheimilt er að auglýsa lyf svo apótek verða að auglýsa aðrar vörur til að laða að viðskiptavini. Heildarvelta apóteka á landinu dróst saman á árinu 2010 samanborið við árið 2009 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Einungis eru fáanlegar tölur fyrir fyrstu tvo mánuði 2011 og sýna þær 10% samdrátt milli ára. Heildarvelta apóteka jókst mikið síðustu ár, allt til ársins 2009 en aukningin milli 2009 og 2008 var 35%.

Tveir ráðandi aðilar á markaðnum

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun er markaðshlutdeild Lyfju og Lyf og heilsu samtals um 65% eða á bilinu 30-35% hvor keðja og samanlögð velta annarra lyfjabúða er um 35%. Þetta er í takt við upplýsingar frá Samkeppniseftirlitinu sem mat markaðshlutdeild hvorrar keðju á bilinu 35 til 40% árið 2007 sem eru nýjustu fáanlegar tölur frá eftirlitinu. Þegar skoðuð er markaðshlutdeild apótekanna hvers fyrir sig þá eru 19 apótek með minna en 1% markaðshlutdeild, 11 apótek með yfir 2% markaðshlutdeild og aðeins þrjú með yfir 5% markaðshlutdeild. Tölurnar eru frá Lyfjastofnun og miðast við heildarlyfjaveltu á heildsöluverði án virðisaukaskatts.

Samtals eru 63 lyfjabúðir á Íslandi. Þar af eru 24 í eigu Lyf og heilsu, 18 í eigu Lyfju og þrjár í eigu Lyfjavals. Sömu eigendur eru á bakvið Reykjavíkurapótek og Apótek Vesturlands. Aðrir sjálfstæðir lyfsalar eru 16.

Nánari úttekt á lyfjamarkaðnum má sjá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.