Davíð Stefánsson, annar ritstjóra Fréttablaðsins, er hættur hjá blaðinu. Sunna Karen Sigurþórsdóttir, ritstjóri vefs Fréttablaðsins, er einnig hætt hjá blaðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Torgi en um skipulagsbreytingar er að ræða sem kynntar voru á starfsmannafundi.

Davíð var ráðinn til Fréttablaðsins í lok maí í fyrra. Skömmu eftir að ráðning hans var kunngjörð var tilkynnt um að Helgi Magnússon hefði eignast helmingshlut í blaðinu. Seinna meir keypti hann þá hluti sem eftir stóðu og var Jón Þórisson ráðinn ritstjóri við hlið Davíðs. Sunna Karen starfaði áður hjá Vísi og Bylgjunni.

Í fyrra keypti Torg ehf., útgefandi Fréttablaðsins, einnig Hringbraut og DV. Samruni við Hringbraut hefur þegar gengið í gegn en sá síðarnefndi er til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri Hringbrautar, verður ritstjóri vefs Fréttablaðsins. Hann gegndi áður starfi aðstoðarritstjóra.

Í tilkynningunni frá Torg kemur fram að Garðar Örn Úlfarsson og Ari Brynjólfsson hafi verið ráðnir sem fréttastjórar blaðsins en þeir störfuðu fyrir hjá fjölmiðlinum.

Jón Þórisson verður áfram ritstjóri blaðsins og Hörður Ægisson mun áfram stýra Markaðnum.