Ýmsir hafa orðið ríkir af miklum sveiflum á rafmyntinni Bitcoin síðustu árin, en forritarinn Stefan Thomas gæti hins vegar orðið af tæplega 31 milljarði króna vegna gleymds lykilorðs. Ríflega 7 þúsund bitcoin í hans eigu, sem metin eru á tæplega 240 milljónir Bandaríkjadala eru læst inni á hörðum diski og gætu eyðst ef hann slær inn rangt lykilorð.

Saga Stefan Thomas er þó ekki einstök, en árið 2013 var sagt frá því að kerfisfræðingur í Wales, James Howells, hefði óvart hent hörðum disk með um 7.500 bitcoins, en þau væru í dag að andvirði um 250 milljóna dala. Þó það hjálpi ekki Howells gæti boð sérfræðings um hjálp trygt Thomas milljarðana sína, í skiptum fyrir 10% af andvirðinu ef tekst að opna veskið.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku fór rafmyntin yfir 41 þúsund Bandaríkjadala um tíma, en í dag er hún verðmetin á ríflega 34 þúsund dali, eða sem samsvarar um 4,4 milljónum íslenskra króna. Er verðgildi myntarinnar nú um áttfalt það sem það var í byrjun heimsfaraldurs kórónuveirunnar í mars á síðasta ári, þegar hvert bitcoin var verðmetið á um 5 þúsund dali.

Í síðustu viku hafði verðmæti rafmyntarinnar tvöfaldast á um hálfum mánuði en hún fór í fyrsta sinn yfir 20 þúsund dalina um miðjan desember. Síðan fór verðgildi hennar í svipaðar fjárhæðir og hún er í nú í ársbyrjun en lækkaði svo á ný áður en hún fór hæst í tæplega 41 þúsund dali.

Borgað í bitcoin fyrir að útskýra rafmyntir

Stefan Thomas, sem býr í San Francisco borg í Kaliforníuríki Bandaríkjanna, fékk fyrir áratug síðan greitt um 7.002 bitcoin fyrir að búa til myndband sem útskýrði hvernig rafmyntin virkaði. Þá var verðgildi þeirra um 2 til 6 Bandaríkjadalir hver, en hann gæti selt þau á um 240 milljónir dala í dag, eða andvirði um 31 milljarð íslenskra króna, miðað við gengi rafmyntarinnar í dag.

Vandamálið er að hann geymdi myntina í þartilgerðu rafrænu veski á tölvunni sinni og hefur hann steingleymt lykilorðinu að veskinu sem þarf til að geta selt myntina. Thomas, sem fæddur er í Þýskalandi, hefur þegar reynt að slá inn lykilorðið átta sinnum, og notað þau algengustu sem hann hefur notað í gegnum árin, en allt hefur komið fyrir ekki.

Vandamálið er, að ef hann reynir tvisvar í viðbót án þess að hitta á rétt mun harði diskurinn hans dulkóðast sjálfkrafa og hann mun aldrei getað nálgast rafmyntina.

„Ég hef bara legið í rúminu og hugsað um lykilorðið,“ hefur Guardian eftir Thomas. „Svo hef ég farið í tölvuna með einhverja nýja herkænskuaðferð, og svo hefur hún ekki virkað, og ég hef orðið örvæntingarfullur á ný.“

Thomas segir að þessi reynsla hafi gert hann afhuga rafmyntum, sem að hans sögn snýst um að einstaklingar geti verið sinn eigin banki, því ástæðan fyrir því að vera með banka er svo fólk þurfi ekki sjálft að standa í öllu því sem bankar gera.

„Leyfðu mér að orða þetta svona, býrðu til þína eigin skó?“

Í kjölfar þess að fréttir fóru á flug um vanda Thomas bauð öryggissérfræðingurinn Alex Stamos honum að nýta aðrar leiðir til að brjóta lykilorðið í skiptum fyrir 10% af virði rafmyntarinnar. Rafmyntagagnafyrirtækið Chainalysis metur sem svo að um fimmtungur þeirra 18,5 milljóna bitcoin sem eru til virðist vera læstar í óaðgengilegum rafrænum veskjum.