Smáforritið, eða appið, Openfolio, hefur birt samantekt yfir árangur notenda sinna í fjárfestingum á síðasta ári. Þriðja árið í röð náðu konur meiri árangri í sínum fjárfestingum en karlar og græddu 77% notenda á fjárfestingum sínum.

Það er mikill viðsnúningur frá síðasta ári þegar mikill meirihluti fjárfesta, hvort tveggja kvenna og karla, töpuðu af fjárfestingum sínum.

Meðalfjárfestirinn náði rétt yfir 5% ávöxtun á árinu 2016 að því er fram kemur í frétt CNN um málið , sem þó það hljómi ekki mikið miðað við 13,4% hækkun Dow Jones vísitölunnar þá er það töluvert hærra en nálega 0% ávöxtun af innlánum í banka.

Tækni- og fjármálafyrirtæki hækkuðu mest

Samkvæmt niðurstöðunum þá voru þeir sem settu fé sitt í tæknifyrirtæki eins og Apple, Facebook og Tesla, sem og í fjármálafyrirtæki sem græddu mest. Þau síðarnefndu hafa tekið kipp upp á við síðan Donald Trump vann kosningarnar í Bandaríkjunum.

Vinsælustu hlutabréfin hjá meðalfjárfestinum er Apple, en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um meira en 10% á árinu.

Önnur hlutabréf sem hafa verið vinsæl má nefna Facebook sem hækkaði um 10%, Bank of America sem hækkaði um 31%, Goldman Sachs sem hækkaði um 33%, Advanced Micro Devices sem hækkaði um 300%, Amazon sem hækkaði um 11% og Netflix sem hækkaði um 8%.

Ódýrir vísitölusjóðir með tvöfallt meiri ávöxtun en meðaltalið

Auk fjárfestinga í einstökum hlutabréfum þá græddu þeir sem settu fé sitt í ódýra vísitölusjóði eins og Vanguard FTSE Emerging Markets ETF sem hækkaði um 9,3% og Vanguard Total Stock Market ETF sem hækkaði um 10,6%.

Vísar síðan á að væntingar fyrir komandi ár séu á þá leið að hlutabréfaverð haldi áfram að hækka þó hún verði ekki jafnmikil og á síðasta ári.