*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 22. apríl 2016 13:25

Tveir þriðju frá Bretlandi og BNA

64% þeirra 70 þúsund ferðamanna umfram árið áður sem heimsóttu Ísland á fyrstu þremur mánuðum ársins voru frá tveimur löndum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Meira en helmingur þeirra ferðamanna sem koma hingað til lands umfram árið á undan á fyrstu mánuðum ársins eru frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Samtök ferðaþjónustunnar telur að auka ætti við fjölbreytni ferðamannanna til þess að áhættunni sé dreift. Þetta kemur fram í frétt Túrista.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu hingað rétt rúmlega 294 þúsund manns. Það er 77 þúsund manna aukning frá árinu á undan. Af þessum 77 þúsund voru 56 þúsund manns frá Bretlandi og Bandaríkjunum, sem bendir til þess að aukningin sé að mestu leyti að koma frá þessum löndum.

Skapti Örn Ólafsson, talsmaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að aukningin og hlutfall ferðamanna innan hennar sé ekki áhyggjuvaldandi en þó gefi hún ástæðu til að staldra við - auðvitað vilji samtökin helst fá fólk frá sem flestum mismunandi löndum.

Aukningin bendir þá til þess, segir Skapti, að Ísland sé að verða meira aðlaðandi áfangastaður utan háannatíma um sumrin. Þá hafi átök á borð við „Ísland allt árið" borið greinilegan árangur. Þá hefur flugumferð frá Bandaríkjunum og Bretlandi aukist svo um munar, en þær eru 406 ferðum fleiri en áður voru.