Dust 514
Dust 514

Þeir Joe Gallo, fjármálastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, og David Reid, markaðsstjóri fyrirtækisins, munu hætta störfum hjá fyrirtækinu í kjölfar breytinga á rekstri CCP. Starfslokin eru hluti af áætlunum CCP að sameina og einfalda starfsemi fyrirtækisins og loka skrifstofu sinni í San Francisco. Fram kemur í tilkynningu CCP að þeir Gallo og Reid eru staðsettir utan borga sem CCP hefur starfsstöðvar í.

Eins og áður hefur komið fram tapaði CCP sem nemur 2,7 milljörðum króna á fystu sex mánuðum ársins. Tapið skrifast öðru fremur á afskriftir á þróunarkostnaði og kostnaði við uppsögn á starfsfólki. Þá hætti fyrirtækið þróun á tölvuleiknum World of Darkness.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir í tilkynningu starfslok þeirra Gallo og Reid hluta af þeim áætlunum að sameina og einfalda starfsemi fyrirtækisins á lykilstarfsstöðvum fyrirtækisins.