Hönnunar- og vefstofan Kosmos & Kaos er í örum vexti samhliða aukinni eftirspurn frá atvinnulífinu á stafrænni hönnun. Hefur fyrirtækið nýverið bætt við sig tveimur hönnuðum í teymið sem telur nú 6 reynslumikla og fjölbreytta hönnuði undir dyggri leiðsögn Guðmundar Bjarna Sigurðssonar, listræns stjórnanda og eiganda. Hjá Kosmos & Kaos starfa því nú alls 16 reynslumiklir hönnuðir og forritarar.

Þeir tveir sem nýverið hófu störf eru Helgi Páll Einarsson og Daði Oddberg.

Helgi Páll Einarsson útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskólanum árið 2007 og starfaði lengst af í auglýsingabransanum, en hefur á undanförnum árum einbeitt sér að stafrænni vöruþróun og hönnun fyrir vefinn, fyrst hjá auglýsingastofunni ENNEMM og síðar hugbúnaðarfyrirtækinu Kolibri.

Daði Oddberg er grafískur hönnuður útskrifaður úr Listaháskóla Íslands vorið 2017, hann stundaði einnig nám við Kunsthøjskolen í Holbæk í Danmörku. Eftir útskrift fór hann út til Belgíu í starfsnám á hönnunarstofunni Undefined sem sérhæfir sig í stafrænu efni.

Kosmos & Kaos spilaði veigamikið hlutverki í Stafrænni framtíð Arion banka, verkefni sem hefur fengið mikla og verðskuldaða athygli undanfarin misseri fyrir áherslu á notendamiðaða hönnun og rafræna ferla til að auka upplifun viðskiptavinar og lágmarka kostnað.

Auk viðurkenninga og verðlauna fyrir vel unnin störf, hefur Kosmos & Kaos fengið viðurkenningu fyrir að vera fjölskylduvænt fyrirtæki og vakið athygli fyrir öfluga starfsmannastefnu sem sífellt er í mótun.