Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu íslensku bankanna og bræðurnir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, og Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Bakkavarar, bítast nú um hlutabréf í eignarumsýslufélaginu Klakka. Þetta kemur fram í frétt DV um málið.

Samkvæmt heimildum DV, þá hafa bræðurnir tveir gert tilboð í hlut ríkisins í eignarhlut Lindarhvols, sem er sú stofnun sem heldur utan um stöðugleikaeignir ríkisins. Þeir hafa einnig að sögn DV, falast eftir því að kaupa hluti í Klakka af ýmsum lífeyrissjóðum.

Langstærsta eign Klakka, sem áður hét Exista, er 100% hlutur í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu. Bræðurnir tveir voru eitt sinn helstu eigendur Exista, en árið 2010 var fjárfestingarfélagið yfirtekið af kröfuhöfum þess við samþykkt nauðungarsamninga.

Burlington Loan Management, hefur samkvæmt heimildum DV, gert hluthöfum sem eiga samtals um 43% hlut í Klakka, yfirtökutilboð sem rennur út fimmtudaginn 20. október.