Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland hlaut tvenn verðlaun á ársfundi Gray Line Worldwide, sem eru samtök fyrirtækja í skoðunar- og pakkaferðum á um 700 áfangastöðum í sex heimsálfum.

Annars vegar fékk Gray Line Iceland „Brand Leadership Award“ fyrir sterkar áherslur á vörumerki samtakanna og hins vegar „Diamond Award“ fyrir að skara framúr í markaðsstarfi, þjónustuframboði og gæðum og vera góð fyrirmynd sem skilar ánægðum viðskiptavinum. „Diamond Award“ er æðsta viðurkenning sem Gray Line Worldwide veitir og aðeins eitt fyrirtæki hlýtur hana á hverju ári.

Gray Line á Íslandi hefur starfað undir merkjum Iceland Excursions um árabil, en um þessar mundir er fyrirtækið alfarið að skipta yfir í alþjóðlega heitið Gray Line. Fyrirtækið er ferðaskipuleggjandi, ferðaskrifstofa og hópferðafyrirtæki og starfsemi þess felst einkum í skipulögðum dagsferðum og afþreyingu fyrir ferðamenn út frá Reykjavík. Á þessu ári er áætlað að rúmlega 500 þúsund farþegar muni ferðast með Gray Line Iceland.

„Verðlaunin skapa mikil tækifæri á alþjóðamarkaði, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir Ísland sem áfangastað,“ segir Þórir Garðarsson. „Á vegum Gray Line fyrirtækjanna er stór hópur sölumanna út um allan heim í stöðugum samskiptum við viðskiptavini sem endalaust eru að leit að nýjum tækifærum. Áhugi þeirra og þekking á Íslandi hefur aukist verulega undanfarin ár og það hjálpar okkur að selja Ísland sem áhugaverðan áfangastað. Vegna þess mikla áhuga sem samstarfsaðilar okkar í Gray Line hafa fengið á Íslandi hefur verið ákveðið að næsti stjórnarfundur samtakanna verði haldinn á Íslandi.“