TVG-Zimsen hefur gert samstarfssamning við North Atlantic Cargo Line (NACL) um sjófrakt til og frá Bandaríkjunum, Kanada og Suður-Ameríku. Boðið verður upp á vikulega heilgámaflutninga og safnsendingar frá Norfolk í Bandaríkjunum til Reykjavíkur segir í tilkynningu frá félaginu.

„NACL er stýrt af Ólafi Matthíassyni sem hefur áratuga reynslu af flutningum til og frá Bandaríkjunum. NACL er með vöruhús í Norfolk í Virginíu sem er mikilvæg höfn fyrir flestar borgir í Bandaríkjunum þar sem allar flutningaleiðir innan Bandaríkjanna eru mjög greiðar og skjótar til Norfolk. Skrifstofa NACL er í sama húsi og vöruhúsið, það gerir starfsmönnum fyrirtækisins kleift að hafa góða yfirsýn yfir allar sendingar sem fara þar í gegn. Einnig eru siglingar milli Norfolk og Evrópu hraðar og tíðari en til annarra hafna í Bandaríkjunum. Flutningsleiðin frá Norfolk til Íslands munu liggja í gegnum Rotterdam. NACL mun einnig notast við beinu siglingaleiðina til Íslands frá Portland í Maine," segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.

„Í gegnum öflugt flutninganet í Bandaríkjunum getur NACL séð um að sækja vöruna fyrir viðskiptavini okkar, hvar sem er í Bandaríkjunum, Kanada, S-Ameríku og komið henni áleiðis til Íslands á hraðan, öruggan og hagkvæman hátt," segir Björn.