TVG-Zimsen hefur keypt skipamiðlunina Gáru í Hafnarfirði. Gára verður rekin sem séreining og dótturfélag innan TVG-Zimsen og munu fyrri eigendur Gáru starfa áfram hjá fyrirtækinu.

Gára var stofnuð árið 1993 og hefur fyrirtækið þjónustað skemmtiferðaskip og togara í Hafnarfirði og um allt land undanfarin 20 ár.

Í tilkynningu er haft eftir Birni Einarssyni, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen, að kaupin á Gáru styrki umboðseiningar fyrirtækisins og auki möguleikana á því að mæta betur þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru á sviði skipamiðlunar og umboðsmennsku fyrir erlend skip hér á landi.

„Við sjáum mikla möguleika í þessum geira í framtíðinni þar sem verkefni tengd þjónustu við skemmtiferðaskip hafa aukist mjög í tengslum við auknar komur þeirra hingað til lands sem og stærri skip. Við munum einnig þjónusta margar og ólíkar tegundir skipa sem leggja að höfn hér við land m.a. togara, rannsóknarskip og herskip en þjónusta við þessi skip hefur einnig aukist undanfarið,“ segir hann.

Hann bendir á að einnig séu fjölmörg tækifæri til framtíðar á Grænlandi og auknum skipakomum þeim tengdum, olíuleit og þjónustu við olíuvinnslufyrirtækin sem og opnun norðurskautsleiðarinnar. „Þjónusta tengd siglingum verður sífellt meiri og mikilvægari. Það eru spennandi tímar framundan og TVG-Zimsen ætlar sér að vera leiðandi í umboðsmennsku fyrir erlend skip hér á landi,“ segir Björn.