Nýlega var stofnuð hjá TVG-Zimsen deild til að sinna sérverkefnum, sem meðal annars sér um umsjón, pökkun og flutninga á listaverkum til og frá landinu sem og innanlands. Flutningur á listaverkum hefur aukist mikið á undanförnum misserum og er TVG-Zimsen að koma til móts við þarfir viðskiptavina sinna með því að stofna sérstaka deild sem sinnir þessum flutningum.

Listaverkaflutningar eru vandasamir og krefjast þess að fyllsta öryggis sé gætt á öllum stigum flutningaferilsins. Oft og tíðum er um gífurleg verðmæti að ræða, segir í tilkynningu vegna stofnunnar nýju deildarinnar.

Starfsemin hérlendis er fólgin í að annast pökkun listaverka til flutnings, skv. fyllstu öryggisstöðlum, í rammgerða trékassa, bókun á flutningi, sérstakri tollmeðhöndlun og flutningi erlendis til móttakanda í samstarfi við viðurkennda listaverkaflutningsaðila erlendis.

Einnig er þessi sama þjónusta í boði vegna flutninga milli staða innanlands. Í langflestum tilfellum þarf að “klæðskerasauma” pakkningar, sérsmíða kassa og hafa tiltækt sérhæft pökkunarefni til að tryggja öryggi í flutningi listaverkanna.

Sérverkefnadeildin stýrir einnig flutningum á erlendum listsýningum sem eru að koma hingað til lands tímabundið, allt frá geymslum safna erlendis og inn á gólf sýnenda hér á landi.

Til að gæta fyllsta öryggis eru flutningar eingöngu í samstarfi við viðurkennda aðila erlendis.  Fylgst er með hverjum þætti í flutningsferlinu og náið samstarf og samvinna höfð við flutningsaðila hverju sinni.

Viðskiptavinir eru flest öll söfn og gallerí landsins auk fjölda listamanna sem í auknum mæli hafa nýtt sér þessa þjónustu undanfarin ár.  Einnig mun þessi deild þjónusta einstaklinga sem

þess þurfa.  Utanríkisþjónustan, sendiráð og bankar eru einnig í hópi þeirra sem nýta sér sérfræðiþjónustu sem þessa.

TVG-Zimsen hefur tekið í notkun geymslu og pökkunarhús með fullkomnu öryggiskerfi og bifreið sem mun nær eingöngu vera notum til listaverkaflutninga innanlands og eru starfsmenn þessarar deildar nú tveir en mun fjölga eftir því sem starfsemin vex, eins og segir í tilkynningunni.