Enn er unnið að því að skoða tvíhliða skráningu hlutabréfa Eimskips í erlenda kauphöll. Í uppgjöri félagsins segir að það sé tengt mögulegum fjárfestingarverkefnum og tækifærum til ytri vaxtar.

Nokkuð er um liðið síðan farið var að skoða tvíhliða skráningu hlutabréfa Eimskips en stjórnendur fyrirtækisins vildu fylgjast með því hvernig sambærileg skráning Icelandair Group í norsku kauphöllina í Ósló myndi ganga. Stefnt var að skráningu hlutabréfa Icelandair Group ytra haustið 2011. Í mars árið 2012 var greint frá því að tekin hafði veri sú ákvörðun að fresta um óákveðinn tíma viðbótarskráningu Icelandair Group á markað ytra. Viðskiptablaðið sagði þá tafir á tvíhliða skráningu hafa áhrif á önnur félög, þá helst Eimskip.

Viðskiptablaðið sagði ástæðu þess að ekkert varð úr skráningu bréfa Icelandair Group í Noregi fyrir tveimur árum gjaldeyrishöft og tafir á úrlausnum frá Seðlabankanum vegna þeirra. Þá sagði blaðið ganga illa að fá skýr svör frá Seðlabanka Íslands um það hvernig standa skuli að skráningunni.