Hinn 4. apríl 2008 var undirrituð í Helsinki bókun við norræna tvísköttunarsamninginn frá árinu 1996. Í þeirri bókun er að finna ýmsar breytingar á einstökum ákvæðum samningsins sem fyrst og fremst taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur á reglum er varða tvísköttun á gildistíma hans. Jafnframt hefur skattalöggjöf landanna breyst nokkuð frá því að samningurinn var undirritaður.

Með bókuninni eru m.a. gerðar breytingar á þeim ákvæðum samningsins sem gilda um skattlagningu arðs. Einnig eru gerðar minniháttar breytingar á reglum um framkvæmd samningsins. Sú breyting sem mestu máli skiptir fyrir íslenska skattborgara er sú sem gerð er á skattlagningu lífeyrisgreiðslna að því er kemur fram í fréttabréfi fjármálaráðuneytisins.