Annar fundur samninganefnda Íslands og Mexíkó var haldinn nýverið í Mexíkóborg. Á fundinum náðist samkomulag um öll þau atriði sem útistandandi voru frá fyrri fundi nefndanna og voru samningsdrög árituð af formönnum þeirra í lok fundarins.

Samningurinn nær einungis til tekjuskatta. Helstu efnisatriði samningsins eru þau að samið var um 5% afdráttarskatt af arði ef félagið sem móttekur arðinn á a.m.k. 10% í félaginu sem greiðir arðinn, en í öðrum tilvikum var samið um 15% afdráttarskatt. Þá var samið um 10% afdráttarskatt af vöxtum og þóknunum. Einnig var samið um upplýsingaskipti á milli landanna varðandi þá skatta sem samningurinn nær til. Samkvæmt samningsdrögunum verður frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun. Samninganefndirnar voru sammála um að stefna að undirritun samningsins eins fljótt og auðið er.