Samningur á milli Íslands og Albaníu til að komast hjá tvísköttun hefur verið undirritaður og nær sá samningur til tekjuskatta. Þetta kemur fram á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Af hálfu Íslands undirritaði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra samninginn og af hálfu Albaníu Ditmir Busahti utanríkisráðherra landsins.

Markmið með undirritun samningsins er ekki eingöngu að koma í veg fyrir tvísköttun tekna heldur einnig að koma í veg fyrir undanskot tekna m.a. með upplýsingaskiptum.

Helstu efnisatriði samningsins eru þau að afdráttarskattur af arði er 5% ef félagið sem móttekur arðinn á am.k. 25% í félaginu sem greiðir arðinn en í öðrum tilvikum er 10% afdráttarskattur. Jafnframt var samið um 10% afdráttarskatt af bæði vöxtum og þóknunum.

Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjunum. Vonast er til að samningurinn komi til framkvæmda 1. janúar 2016.