75% íslenskra fagfjárfesta telja að aðstæður í efnahagslífinu séu góðar um þessar mundir. Á sama tíma telur þriðjungur fagfjárfesta að aðstæður í hagkerfinu muni versna innan sex mánaða. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði meðal 105 fagfjárfesta á tímabilinu 18. september til 11. október sl.

Í Morgunkorni Glitnis segir að niðurstöðurnar beri vott af þeirri óvissu sem einkennir markaði þetta haustið. Þrátt fyrir að meirihluti fagfjárfesta sé ánægður með aðstæður í efnahagslífinu á því tímabili þegar könnunin var gerð eru fáir sem búast við að ástandið verði betra að hálfu ári liðnu. Þeir allra svartsýnustu eru einnig fáliðaðir á þessum óvissutímum en eingöngu 6% aðspurðra telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar. Rétt rúmlega 21%  telja að aðstæður verði betri í efnahagslífinu eftir hálft ár frá því að könnunin var gerð en helmingur aðspurðra telur að þær verði óbreyttar.

Stýrivextir enn háir að ári liðnu Töluverð samstaða virðist ríkja um að gengi krónunnar muni lækka og gengi hlutabréfa hækka á næstu tólf mánuðum. Rúmlega 70% fagfjárfesta telja að krónan komi til með að veikjast á næstu tólf mánuðum og búast þeir við að veikingin nemi um það bil 6,5% að meðaltali. Þá búast 82% fagfjárfesta við að hlutabréf hækki á sama tímabili og að hækkunin nemi að meðaltali 12%. Helmingur aðspurðra segist telja að stýrivextir Seðlabankans verði hærri en 12% að einu ári liðnu en rétt rúmlega fjórðungur segist telja að vextir verði lægri en 11%.

Frá því að könnunin var gerð hefur gengi krónunnar veikst um u.þ.b. 4% miðað við meðalgengi daganna sem könnunin stóð yfir, og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkað um 17%, í því umróti sem einkennt hefur fjármálamarkaði síðustu vikur, segir í Morgunkorni Glitnis.