*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Innlent 13. september 2018 09:56

Tvísýn staða

Rekstrarstaða WOW air hefur breyst hratt til hins verra. Forsvarsmenn félagsins hafa síðustu daga ekkert gefið upp um stöðuna í 5,5 milljarða króna skuldabréfaútboði félagsins.

Ingvar H. & Trausti H.
Flugfélagið WOW air er alfarið í eigu Skúla Mogensen í gegnum Títan Fjárfestingafélag ehf.
Haraldur Guðjónsson

Lausafjárstaða WOW air hefur verið veik um nokkurt skeið. Eiginfjárstaðan hefur líka farið versnandi. Í lok júní var eiginfjárhlutfallið 4,5% en til samanburðar var það 16% í byrjun árs 2017. Vegna stöðunnar tilkynnti félagið um miðjan ágúst að það hygðist fara í 6 til 12 milljarða króna skuldabréfaútboð. Eiga fjármunirnir að brúa reksturinn þar til félagið verður skráð á markað eftir um það bil 18 mánuði.

Erfiðara hefur reynst fyrir stjórnendur WOW að fá fjárfesta til að taka þátt í útboðinu en þeir ætluðu í upphafi. Vegna þessa hefur skuldabréfaútboð félagsins dregist á langinn. Í viðtali í Fréttablaðið föstudaginn 31. ágúst sagði Skúli Mogensen, eigandi WOW, að erlendir fjárfestar hefðu skráð sig fyrir stórum hluta. Í viðtali við Bloomberg í síðustu viku sagði Skúli að skuldabréfaútboðið myndi klárast öðru hvoru megin við helgina. Var þá miðað við að skuldabréfaútboðið yrði 5,5 milljarðar króna. Skilmálar útboðsins hafa líka breyst. Nú er fjárfestum boðinn kaupréttur að hlutafé þegar það verður skráð. Fá fjárfestarnir 20 til 25% afslátt af skráningargenginu.

Birna var ekki á fundinum

Í gær greindi Fréttablaðið frá því að stjórnendur WOW hefðu á þriðjudaginn fundað með bankastjórum Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Samkvæmt Fréttablaðinu voru stjórnendur WOW að ræða við bankastjórana um mögulega aðkomu bankanna að fjármögnun félagsins.

Viðskiptablaðið hefur ekki fengið þetta staðfest en þó hefur blaðið áreiðanlegar heimildir fyrir því að hvorki Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sat fundinn né nokkur annar frá þeim banka.

Er þetta ekki í fyrsta skiptið sem stjórnendur WOW funda með forsvarsmönnum bankanna. Þann 22. ágúst greindi Viðskiptablaðið frá því að þeir hefðu kynnt skuldabréfaútboðið fyrir ríkisbönkunum tveimur og lífeyrissjóðum. Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að Skúli hafi fundað með forsvarsmönnum Stefnis og Arion banka í síðustu viku.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá virðist sem WOW air þurfi að fá íslenska fjárfesta, helst stofnanafjárfesta, með til þess að auðvelda sölu skuldabréfsins erlendis.

Lána bankarnir?

Erfitt er að fá sérfræðinga á markaði til að tjá sig um málið enda er staðan mjög viðkvæm. Þó telja heimildarmenn blaðsins að útilokað sé fyrir bankana að taka þátt í skuldabréfaútboðinu og  að mjög erfitt verði fyrir þá að lána WOW, bæði vegna lágs eiginfjárhlutfalls og skorts á veðum. Þá nema vaxtaberandi skuldir WOW í dag um 600 milljónum dollara eða 68 milljörðum króna. Bankarnir eru nú þegar farnir að herða ólina í útlánum og krefja til að mynda verktaka um allt að 40% eiginfjárhlutfall. Eiginfjárhlutfall WOW er 4,8%, eins og áður sagði.

Þess ber að geta að Fjármálaeftirlitið setur ekki kvaðir um lágmarks eigið fé fyrirtækja sem bankar lána til. Ákvarðanir um útlán byggja fremur á innri lánareglum viðkomandi banka og mati innan bankanna á fýsileika hverrar lánveitingar.

Rekstrarstaða WOW hefur breyst hratt og hefur það greinilega komið stjórnendum félagsins á óvart því í nóvember í fyrra tilkynnti WOW að með sölu- og endurleigusamningi við flugvélaleiguna SKY Leasing á tveimur Airbus A321ceo-vélum væri fjármögnun félagsins tryggð út árið 2019.

Undanfarna daga hafa birst fréttir af því að stefnt sé að því að skrá skuldabréfið í Kauphöllinni í Frankfurt. Rétt er að geta þess að þær upplýsingar komu fram í fjárfestakynningunni sem birtist um miðjan ágúst. Þar kom einnig fram að bréfið yrði skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi.

Ekki náðist í forsvarsmenn WOW.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is