Samkvæmt upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hafði aflað frá viðskiptabönkunum voru brúttó kröfur þeirra á Lehman Brothers og tengda aðila samtals 182,6 milljónir evra eða sem samsvarar 1,8% af heildareiginfjárgrunni bankanna.

Þar sem hlutfallið var lágt taldi FME að þessar áhættur, þ.e. kröfurnar á Lehman, væru ekki áhyggjuefni fyrir fjármálakerfið hér á landi.

Þetta kom fram á vef Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir tveimur árum síðan þegar bandaríski bankinn Lehman Brothers fór í þrot. Í dag, 15. september, eru tvö ár síðan bankinn fór í þrot.

Um var að ræða nánast eingöngu skuldabréfakröfur eða ígildi þeirra (senior debt) en ekki áhættu í formi hlutabréfa eða víkjandi krafna.

FME vakti athygli á því að kröfurnar voru að nokkru leyti á félög sem ekki voru í greiðslustöðvun en tengdust Lehman Brothers. Þá sagðist FME vænta þess að að hluti framangreindra krafna innheimtist.

„Með hliðsjón af lágu hlutfalli af eiginfjárgrunni teljast þessar áhættur ekki áhyggjuefni fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Íslenskir bankar hafa ekki sérstöðu í þessu sambandi þar sem flestir stærri erlendir bankar hafa upplýst um kröfur á Lehman Brother,“ sagði á vef FME fyrir ári síðan.

Það sem síðan gerðist var að eftir fall Lehman Brothers frusu fjármálamarkaðir og fjármögnun banka varð erfið og jafnvel ómöguleg, eins og í tilviki íslensku bankanna. Þar með má segja að þótt bein áhrif af falli Lehman hafi ekki verið umtalsverð hér á landi, þá voru óbeinu áhrifin meðal þess helsta sem felldi íslensku bankana.