Því hefur gjarnan verið haldið fram að kostnaður við skilanefndir og slitastjórnir íslensku bankanna sé hár. Kostnaðurinn kemst þó ekki á námunda við kostnað vegna slita bandaríska bankans Lehman Brothers sem nú stefnir í um 2 milljarða Bandaríkjadala.

Í dag, 15. september, eru liðin tvö ár frá því að Lehman Brothers, sem þá var einn af stærstu bönkum heims, varð gjaldþrota.

Sem fyrr segir nálgast kostnaðurinn við það að slíta starfsemi bankans um 2 milljarða dali. Þar er meðtalinn kostnaður vegna starfsemi bankans í Bandaríkjunum og Evrópu en starfsemi bankans í Asíu var seldur í fyrra og því enginn kostnaður sem fellur beint til vegna slita bankans þar. Breska blaðið Financial Times (FT) greindi frá því í vikunni að 2 milljarða dala komi til þrátt fyrir heimtur og lögfræðikostnað sem hafi að hluta til verið endurgreiddur.

Kostnaðurinn vegna slita bankans í Bandaríkjunum fer að öllum líkindum yfir 1 milljarða dala í þessu mánuði að sögn FT en í júlí sl. nam reiknaður kostnaður þegar tæpum 920 milljónum dala. Svipaða sögu er að segja af slitum á starfsemi bankans í Evrópu.

Kostnaður slitastjórnar bankans, sem er í höndum PricewaterhouseCoopers (PWC), er þó lítill í samanburði við efnahagsreikning bankans sem nam rúmum 690 milljörðum dala rétt fyrir fall bankans.

Forsvarsmenn PWC hafa margoft sagt að það geti tekið áratugi að slíta með öllu starfsemi bankans.

Til upprifjunar er hér að neðan látinn fylgja hluti úr fréttaskýringu Viðskiptablaðsins frá því í fyrra þegar ár var liðið frá gjaldþroti bankans:

Bankinn hafði átt í nokkrum erfiðleikum síðustu vikur og mánuði fyrir gjaldþrotið en helgina 13. – 14. september sátu stjórnendur bankans, ásamt Henry Paulson, þáverandi fjármálaráðherra og Ben Bernanke, seðlabankastjóra, á krísufundum í þeirri von að bjarga bankanum.

Sunnudagskvöldið 14. september þótt nokkuð ljóst að bankanum yrði ekki bjargað og viðmælendur fjölmiðla vestanhafs vöruðu við því að markaðir myndu taka illa í þessar fréttir við opnun markaða daginn eftir. Það reyndist rétt enda lækkaði Dow Jones vísitalan um 4,4% þann dag, sem var mesta lækkunin frá því að hryðjuverkaárásir voru gerðar á New York og Washington þann 11. september 2001.

Um 24.000 manns störfuðu hjá Lehman í Bandaríkjunum og um 4.000 í Lundúnum. Gjaldþrotið var stærsta einstaka dauðsfall fjármálastofnunar frá því að lausafjárkreppan gerði vart við sig á fjármagnsmörkuðum, og eitt stærsta gjaldþrotið í sögu bandarísks viðskiptalífs.