Ástæðan fyrir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi eru jöfnunarþingmenn Viðreisnar. Aðeins þarf tveggja atkvæða breytingu til að þau riðlist sem mun hafa áhrif á öll þau sem á eftir koma. Ekki verður talið aftur í Suðurkjördæmi þótt mjótt sé á mununum.

Miðað við úrslit kosninganna þá fær Viðreisn annan jöfnunarmanninn sem úthlutað er. Hins vegar munar tveimur atkvæðum á því hvort það sæti fer til Guðmundar Gunnarssonar í Norðvestur eða Guðbrands Einarssonar í Suður. Við úthlutun jöfnunarsæta er fyrirkomulagið þannig að þegar öll sæti í kjördæmi hafa verið fyllt þá er því lokað og eiga aðrir flokkar ekki séns á að komast þar að.

Sem stendur er Guðmundur inni en ef það breytist þá hefur það áhrif á fjóra þingmenn sem nú eru inni enda fara jöfnunarsætin þá á flakk milli kjördæma. Afleiðingin yrði sú að Miðflokkurinn fengi jöfnunarmann í Norðvestur í stað Suðvestur og Bergþór Ólason því orðinn þingmaður aftur á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar.

Orri Páll Jóhannsson kæmi inn fyrir Vinstri græn í stað Hólmfríðar Árnadóttur, Jóhann Páll Jóhannsson yrði þingmaður Samfylkingar í stað Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Píratinn Gísli Rafn Ólafsson yrði þingmaður í stað Lenyu Rúnar Taha Karim. Það myndi þýða að karlar yrðu á ný í meirihluta á þinginu.

Ekki verður talið aftur í Suðurkjördæmi en þar munar aðeins átta atkvæðum á því að Vinstri græn nái kjördæmakjörnum manni inn á kostnað Miðflokksins. Ef sú talning færi fram, og í ljós kæmu átta VG-seðlar, þá myndi það hafa enn meiri áhrif á jöfnunarsætin. Ekki er þó útlit fyrir að það verði svo.