Isavia Innanlandsflugvöllum barst tvö tilboð í viðbætur og breytingar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Tilboðin bárust frá verktakafyrirtækjunum Húsheild annars vegar og Hyrnu hins vegar. Tilboð Húsheildar hljóðar upp á tæpar 865 milljónir króna en tilboð Hyrnu upp á rúmar 810 milljónir króna.

Verkefnið felur í sér viðbyggingu við núverandi flugstöð og breytingu á núverandi húsnæði flugstöðvarinnar og nánasta umhverfi. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni var tekin í júní síðastliðnum.

„Nú verður farið ítarlega yfir þessi tvö tilboð sem bárust,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, í fréttatilkynningu. „Verkefnið sem hér um ræðir er 1.100 fermetra viðbygging við flugstöðina með góðri aðstöðu fyrir toll og lögreglu, fríhöfn og veitingastað. Áætlað er að heildarverkefninu verið lokið síðsumars 2023.“