*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 10. febrúar 2006 11:42

Tvö félög í sigtinu hjá Bílanaust

Ritstjórn

"Við höfum ákveðna stefnumótun í Bretlandi þar sem við höfum verið að kaupa upp iðnaðarheildsölur sem liggja á landssvæðinu á milli London og Birmingham. Við höfum verið að taka þar fyrirtæki sem hafa verið að velta á bilinu 200 til 300 milljónum króna. Við erum búnir að kaupa fimm slík félög og erum sennilega að kaupa tvö félög í viðbót," segir Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bílanausts, í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Hermann er framkvæmdastjóri Bílanausts og nýs félags um kaupin á Olíufélaginu, hefur stýrt fjárfestingum Bílanausts erlendis undanfarin misseri. Hefur Bílanaust keypt fimm fyrirtæki í Bretlandi sem öll eru í sölu og dreifingu á iðnaðarvörum. Starfsmenn fyrirtækisins í Bretlandi eru nú um 100 talsins og eru frekari fyrirtækjakaup í skoðun í sömu grein. Einnig er verið að kanna kaup á bresku fyrirtæki í varahlutaheilsölu í líkingu við Bílanaust. Ætlun Bílanausts er að tvöfalda reksturinn í Bretlandi á þessu ári og að veltan verði þá um 2,5 til 3 milljarðar króna.

Tvö félög í sigtinu

"Við höfum sameinað þetta allt undir einni yfirstjórn og með einu miðlægu vöruhúsi í Northamton í Englandi. Þannig erum við að ná mjög mikilli rekstrarhagræðingu þar sem við lokum skrifstofuhaldi í þessum fyrirtækjum og fáum inn umtalsvert innkaupaafl sem ekki var fyrir til staðar hjá þessum litlu einingum. Við erum því að gera óarðbæran rekstur arðbæran með því að búa til stærri einingar, skera yfirstjórnir í burtu og breyta félögunum í sölufyrirtæki."

Hann segir að þessi fyrirtæki séu í raun byggð á sömu hugmynd og fyrirtækið Slípivörur og verkfæri sem Hermann rak áður en hann kom inn í Bílanaust. Það félag átti reyndar líka lítið fyrirtæki á sama sviði í Bretlandi.

"Við áttum þar lítið fyrirtæki í fimm ár sem er sprotinn að þessu. Fyrir 18 mánuðum tókum við þá ákvörðun að annaðhvort yrði því fyrirtæki lokað eða þá að við færum alla leið. Við gerðum markaðsrannsókn og sáum að það kostaði ekki mikla fjármuni að fjárfesta frekar og gera dæmið áhugavert. Við lögðum því upp í þá leið og erum á henni ennþá."

Kortleggja varahlutamarkaðinn

Hermann segir að í þessum fyrirtækjum sé ekki verslað með varahluti eins og gert er í Bílanausti. -- "Við erum hins vegar að skoða það líka og erum að láta kortleggja fyrir okkur varahlutamarkaðinn í Bretlandi. Við munum skoða einhverja aðila á honum síðar á árinu," segir Hermann. Hann telur að þetta geti verið álitlegur kostur og það sem þeir hafi skoðað fram að þessu lofi góðu.