Tap tveggja samstæðufélaga MP banka, Palteskju hf. og Spákonufells hf., nam samtals um 275 milljónum króna á síðasta ári. Félögin voru stofnuð í árslok 2009. Þau voru fjármögnuð að fullu af MP banka með kúlulánum til þriggja ára sem veitt voru 19. desember 2009. Samtals nam lánsfjárhæð tæpum milljarði króna.

Tap félaganna á síðasta ári nam því nærri um þriðjungi lánanna sem veitt voru félögunum um tveimur vikum fyrr. Í ársreikningum félaganna fyrir síðasta ár kemur fram að tapið sé að mestu leyti vegna óinnleysts taps af hlutabréfaeign.

Halda um hlut í hollensku félagi

Palteskja og Spákonufell voru stofnuð til að halda utan um hlut MP banka í hollenska félaginu Vostok Holdings Netherlands BV.

Í hollenska félaginu eru eignir sem áður voru undir Vostok Holdings hf. og Aurora Holding hf. Þessi félög voru í eigu MP banka og tengdra aðila en var slitið 18. desember 2009. Samtals nemur virði eigna sem færðar voru úr Vostok Holdings og Aurora Holding í hollenska félagið um 5,2 milljörðum króna.

MP banki á nú 14% í hollenska félaginu í gegnum Palteskju og Spákonufell. Þau voru fjármögnuð daginn eftir að Vostok Holdings og Aurora Holding var slitið. Í ársreikningi nýju félaganna kemur fram að eigið fé Palteskju var neikvætt um 60,8 milljónir króna í árslok og eigið fé Spákonufells var neikvætt um 206,3 milljónir króna.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .