Gert er ráð fyrir því að um tvö hundruð erlendir gestir frá yfir þrjátíu löndum sæki alþjóðlega frumkvöðlaráðstefnu í Reykjavík dagana 24. til 26. mars. Ráðstefnan er haldin í samstarfi MIT-háskólans í Boston, Háskólans í Reykjavík (HR) og Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs.

Í tilkynningu frá HR kemur fram að búist er við því að um þrjú hundruð manns taki þátt í ráðstefnunni. Í þeim hópi eru frumkvöðlar, stjórnmálamenn, háskólakennarar, fjárfestar og nemendur.

Meginþema ráðstefnunnar er hvernig yfirvinna megi efnahagskreppu með nýsköpun, frumkvöðlastarfi og endurnýjanlegri orku.

Þá kemur fram að MIT hefur haldið ráðstefnu sem þessa árlega frá 1998 og fer hún nú fram í þrettánda sinn.  Í ár er hún skipulögð af MBA-nemum við Háskólann í Reykjavík í samvinnu við nemendur frá MIT.

Þekktir frumkvöðlar eru í hópi þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni. Má þar nefna Robin Chase, stofnanda og fyrrverandi forstjóra Zipcar og GoLogo en hún var í fyrra valin ein af 100 áhrifamestu einstaklingum heims af Time Magazine. Þá má nefna Ken Morse, raðfrumkvöðul og stofnanda frumkvöðlaseturs MIT.

Undirbúningshópur ráðstefnunnar gaf í gær út sérstakt sextán síðna blað um ráðstefnuna, frumkvöðlastarf og nýsköpun. Því er dreift með Viðskiptablaðinu í dag.

Í blaðinu er haft eftir Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, að mikil tækifæru séu í nýsköpun hér á landi. Íslendingar þurfi hins vegar að tileinka sér nýjar leiðir svo hægt verði að nýta þau tækifæri sem best.

Ari bendir á að lítil hefð sé fyrir beinni fjárfestingu í nýsköpunarverkefnum hér á landi ólíkt því sem þekkist til dæmis í Bandaríkjunum. „Með því að skapa hvata og grundvöll fyrir fjárfestingu einstaklinga sem og sjóða í nýsköpun er hægt að skapa fjárfestingartækifæri og stórefla nýsköpun á Íslandi. Slíkt hefur bæði samfélagslegan og efnahagslegan ávinning.“

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér: http://www.hr.is/mba/mitgsw/