Von er á um 200 erlendum gestum á sérstaka Bransadaga alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Reykjavík InternationalFilm Festival (RIFF) í næstu viku en hátíðin hófst formlega í vikunni. Samkvæmt Hrönn Marinósdóttur, framkvæmdastjóra RIFF, er von á fulltrúum stórra sölu- og dreifingarfyrirtækja sem koma sérstaklega hingað til lands til að skoða að framleiða kvikmyndir á Íslandi, frá fyrirtækjum á borð við Trust Nordisk, Films Boutique og Ramonda Films.

Að auki er von á blaðamönnum frá Variety, Hollywood Reporter, Huffington Post og Dazed and Confused auk þess sem fulltrúar kvikmyndahátíða í Toronto, Dublin og Feneyjum hafa einnig boðað komu sína. Á Bransadögunum stendur m.a. til boða sérstakt „meistaraspjall“ við heiðursgest hátíðarinnar, Mike Leigh, auk sérstakra kynninga á íslenskum kvikmyndatónskáldum og færeyskri og grænlenskri kvikmyndagerð.