Slitastjórn SPRON hefur sent tvö mál tengd starfsemi sparisjóðsins fyrir hrun til sérstaks saksóknara. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins tengist annað málið tengslum SPRON við Exista, en SPRON var stór hluthafi félagsinu. Þá var Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON stjórnarmaður í Exista og Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, stjórnarformaður SPRON. Bæði málin eru enn í skoðun hjá embætti sérstaks saksóknara.

Slitastjórn SPRON vildi ekki tjá sig um málið í samtali við vb.is í dag.

Auk tengsla stjórnarmanna SPRON og Exista voru talsverð tengsl á milli SPRON og Kaupþings. Exista var stærsti hluthafi Kaupþings auk þess sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG sá um endurskoðun hjá bæði Kaupþingi og SPRON.

SPRON var skráð í Kauphöllina í október árið 2007 og var það síðasta skráning félags þar fyrir hrun. Sparisjóðurinn átti engu gengi að fagna þar. Síðsumars 2008 var svo í skoðun að SPRON og Kaupþing myndi sameinast og voru uppi hugmyndir um að hluthafar SPRON fengju 60% kaupverðsins greitt með hlutabréfum í Exista. Um þetta leyti hafði gengi hlutabréfa SPRON fallið um rúm 80% og gengi bréfa Exista álíka mikið.