Met var slegið í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag er heildarviðskipti voru 975 talsins. Fyrir tveimur dögum voru viðskiptin 788 sem voru þá flest viðskipti á einum degi í rúmlega tólf ár. Á þriðjudag voru 488 viðskipti með bréf Icelandair Group sem voru einnig flest viðskipti með bréf í einu félaginu á einum degi á síðustu tólf árum. Í dag voru viðskipti með bréf Icelandair 738 talsins, helmingi meira en þegar metið var slegið fyrr í vikunni.

Heildarvelta með bréf Icelandair nam tæplega milljarði króna og lækkuðu þau um 2,72% og standa í 1,79 krónum hvert. Mest velta var með bréf Eimskips fyrir ríflega milljarð króna. Bréf Eimskips hækkuðu um þrjú prósent og standa í 240 krónum.

Alls hækkuðu bréf átta félaga en einungis bréf Eimskips um meira en eitt prósent. Bréf ellefu félaga lækkuðu, þar af lækkuðu bréf fimm félaga um meira en eitt prósent. Úrvalsvísitalan hækkaði um lítil 0,02% og stendur í um 2.457 stigum.

Gengi íslensku krónunnar lækkaði gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum, að breska pundinu undanskildu. Krónan styrktist gagnvart pundinu um 0,71% sem fæst á tæplega 170 krónur.

Krónan veiktist gagnvart evrunni um 0,52% sem fæst á 155 krónur og um 0,2% gagnvart Bandaríkjadollara sem fæst á 128 krónur.