Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp úrskurð og dóm í málum sem snúa að verðtryggðum íslenskum lánum. Úrskurðurinn var kveðinn upp í máli Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka og dómur féll í máli Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur gegn Íbúðalánasjóði. Úrskurðurinn féll Íslandsbanka í vil og Íbúðalánasjóður var sýknaður. Gunnar hefur þegar ákveðið að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar og í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem standa á bak við málið gegn Íbúðalánasjóði, segir að telja megi víst að dómnum verði áfrýjað.

Mál Gunnars snýst um 4,4 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán sem hann tók á fyrri hluta ársins 2007 vegna fasteignar við Lækjargötu 4 í Reykjavík.

Í málflutningi sínum í Héraðsdómi í byrjun janúar lagði Einar Páll Tamimi, lögmaður Gunnars, áherslu á að skjólstæðingur hans hefði fengið rangar og villandi upplýsingar um lán sitt þegar hann skrifaði undir samninginn. Samningsákvæði í lánasamningnum væri ósanngjarnt í skilningi Evróputilskipunar (93/13/EBE), en tilskipunin fjallar um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Krafa Gunnars í málinu var að felldi yrði úr gildi ákvörðun Sýslumanns Reykjavíkur frá 13. ágúst 2012 um fjárnám í eigninni við Lækjargötu.

Héraðsdómur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi komið fram að „vanræksla varnaraðila (Íslandsbanka), á því að veita sóknaraðila fullnægjandi greiðsluáætlun þegar hann tók téð lán hjá varnaraðila, hafi haft slíkar afleiðingar fyrir hagsmuni sóknaraðila að geti leitt til ógildis verðbótaákvæðis lánssamnings aðila. Verður kröfu sóknaraðila því hafnað og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um fjárnám að kröfu varnaraðila í eignarhluta sóknaraðila, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði," segir í úrskurðinum.

Þar sem þetta er úrskurður en ekki dómur hefur Gunnar aðeins tvær vikur til að áfrýja til Hæstaréttar og staðfesti Einar Páll Tamimi í samtali við Viðskiptablaðið að úrskurðinum yrði áfrýjað.

Íbúðalánasjóður sýknaður

Þá sýknaði Héraðsdómur Íbúðalánasjóð af kröfum Theodórs og Helgu Margrétar. Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki dómsmálinu sem snérist um lán sem þau tóku hjá sjóðnum árið 2003. Engin greiðsluáætlun fylgdi því láni og kröfðust Theodór og Helga Margrét þess meðal annars að fá verðbæturnar, sem þegar hefðu verið greiddar, dregnar frá höfuðstól lánsins.

Dómurinn er athyglisverður að því leyti að Héraðsdómur viðurkennir að Íbúðalánasjóður hafi vænrækt upplýsingaskyldu sína sbr.: "... er það niðurstaða dómsins að þótt tekið sé mið af þeim upplýsingum sem stefnendur (Theodór og Helga Margrét) fengu í greiðslumatinu hafi þau ekki fengið þær upplýsingar um heildarlánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar af umræddu láni sem skylt var að veita þeim samkvæmt lögum."

Þrátt fyrir þetta telur dómurinn ekki unnt að fallast á að vanræksla Íbúðalánasjóðs við upplýsingagjöf leiði fyrirvaralaust til þess að honum sé óheimilt að krefja Theodór og Helgu Margréti um slíkan kostnað „þar á meðal kostnað sem byggðist á verðbótarákvæðum lánssamningsins. Er þá sem fyrr horft til þess að lögin gera skýrlega ráð fyrir því að aðstæður geti verið með þeim hætti að árleg hlutfallstala kostnaðar byggist á áætlun með tilliti til breytilegra atriða, sem ekki er hægt að meta með vissu á þeim tíma sem útreikningur er gerður. Á þetta sérstaklega við um verðbætur, enda hlýtur sá kostnaður lántaka, sem helgast af samningsskilmálum um verðtryggingu, að vera óviss í efnahagsumhverfi sem einkennist af óstöðugu verðlagi líkt og hér á landi. Ber í því sambandi að árétta að stefnda (Íbúðalánasjóði) var á þeim tíma sem um ræðir óheimilt að veita annars konar lán en verðtryggð jafngreiðslulán til allt að 40 ára."

Íbúðalánasjóður var því sýknaður af kröfum Theodórs og Helgu Margrétar en þó tekur Héraðsdómur sérstaklega fram að engin afstaða sé tekin til þess „hvort stefnendur kunni að eiga kröfu um skaðabætur á hendur stefnda eða njóta annarra vanefndaúrræða."

Í báðum þessum málum var dómurinn fjölskipaður en það voru héraðsdómararnir Skúli Magnússon, Kolbrún Sævarsdóttir og Ásmundur Helgason sem dæmdu og kváðu upp úrskurð.

Eitt mál eftir

Mál Gunnars er annað af tveimur málum sem fór fyrir EFTA-dómstólinn. Dómur í hinu málinu sem EFTA-dómstóllinn gaf ráðgefandi álit í er ekki fallinn en það er mál Sævar Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum. Í máli Sævars Jóns komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það samrýmist ekki tilskipun Evrópusambandsins að miðað við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun verðtryggðra lána.