Tvær af elstu raftækjaverslunum landsins hafa sameinast undir nafninu Rafland. Einar Farestveit og Co. var stofnað árið 1964 og Sjónvarpsmiðstöðin árið 1971. Bæði þessi nöfn hverfa nú af íslenskum fyrirtækjamarkaði en samanlagður starfsaldur þessara tveggja fyrirtækja er hartnær ein öld.

Þó verslanirnar séu nú að sameinast undir einu nafni þá hafa þær verið í eigu sömu aðila frá árinu 2008. Þessir sömu aðilar reka einnig Heimilistæki og Tölvulistann á Suðurlandsbraut.

Þegar Einar Farestveit og Co. var stofnað  flutti fyrirtækið inn vélar í báta og skip og ýmsan búnað sem tengdist sjávarútvegi. Starfsemin hefur breyst mikið og undanfarin ár hefur fyrirtækið verið með verslun í Borgartúni 28, þar sem seld hafa verið heimilistæki, lækningatæki, sem og rafhitunar- og loftræstibúnað.

Sjónvarpsmiðstöðin, sem rekið hefur verslun í Síðumúla 2, hefur frá upphafi flutt inn og selt raftæki eins og til dæmis sjónvörp, hljómtæki og myndavélar.

Nokkuð langur aðdragandi

Rafland, nýja verslunin, verður til húsa í Síðumúla 2 og 4. Nýr framkvæmdastjóri Raflands er Ólafur Már Hreinsson.
Hann segir að sameiningin hafi átt sér nokkuð langan aðdraganda enda hafi sömu eigendur átt fyrirtækin frá árinu 2008.

„Með þessari sameiningu getum við samnýtt markaðsstarf og boðið meira úrval af raftækjum," segir Ólafur Már. „Við erum sérstaklega að auka úrval stórra raftækja eins og ísskápa, þvottavéla og þurrkara og svo munum við auka úrval af sjónvarpstækjum. Við munum bæði bjóða upp á ódýrar vörur en einnig lúxusvörur."

Ólafur Már segir að ný verslun verði rekin í tveimur húsum hlið við hlið. Í Síðumúla 4 verða stóru hvítu raftækin en í Síðumúla 2 verða sjónvarpstækin og minni raftæki eins og til dæmis myndavélar, hljómtæki eða brúnvörurnar eins og þær eru stundum kallaðar.

Tengist ekki komu Costco

Eins flestir vita er risastórt fyrirtæki að koma inn á íslenska smásölumarkað en það er Costco, sem mun meðal annars koma til með að selja raftæki.

Spurður hvort sameining Sjónvarpsmiðstöðvarinnar og Einars Farestveit og Co. tengist eitthvað komu Costco svarar Ólafur Már: „Nei, í sjálfu sér ekki. Við leggjum áherslu á að vera sérverslun, þar sem þekking starfsmanna á þeim vörum sem við erum að selja er mikil. Þar með teljum við okkur vera að bjóða upp á góða þjónustu. Verslun Einars Farestveit hefur líka verið á tiltölulega erfiðum stað í Borgartúni, þar sem lítið er af bílastæðum. Það hefur því lengi verið ætlunin að flytja þaðan."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .