Tvö tilboð bárust Orkustofnun í sérleyfi til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu norðaustur af Íslandi en tilboðsfrestur rann út 15. maí. Annað tilboðið kom frá norska fyrirtækinu Aker Exploration sem er eitt af fyrirtækjum í veldi Kjell Inga Rökke. Þá var Sagex Petroleum í Noregi og íslenska félagið Lindir Exploration sameiginlega með annað tilboð.

Sagex er að 20% hluta í eigu Íslendinga með Jón Helga Guðmundsson í fararbroddi. Lindir Exploration er svo í eigu Straumborgar fjárfestingarfélags sem aftur er í eigu Jóns Helga og fjölskyldu hans.

Samtals ná umsóknir þessar báðar yfir eftirfarandi reiti, að hluta eða í heild:

IS6708/1, IS6708/2, IS6808/11 og IS6909/11 Reitir IS6808/11 og IS6909/11 eru innan þess svæðis þar sem í gildi er samkomulag við Noreg um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Noregs, sem undirritað var 22. október 1981.

Þær umsóknirnar sem bárust Orkustofnun verða metnar í samræmi við þá aðferðarfræði sem birt var í útboðsgögnunum og stefnt er að því að endanleg ákvörðun um veitingu leyfa liggi fyrir í lok október nk.

Auk þessa hefur bandaríska fyrirtækið Ion GX Technology sótti um leitarleyfi á Drekasvæðinu í sumar. Er síðan ætlun félagsins að selja niðurstöður þeirra rannsókna til áhugasamra olíufyrirtækja.