Þann 22. september voru opnuð tilboð í hlutafé Eignarhaldsfélagsins Smáralindar ehf. sem verið hefur í opnu söluferli frá því í apríl sl.

Alls bárust tvö tilboð í Eignahaldsfélagið Smáralind ehf. eftir að það var sett í söluferli í apríl sl. og hafa þau verið yfirfarin og metin.

Það er niðurstaða stjórnar Fasteignafélags Íslands, eiganda hlutafjár félagsins, að hvorugt tilboðið sé viðunandi og hefur þeim því báðum verið hafnað.

Þetta kemur fram í tilkynningu Fasteignafélagsins til Kauphallarinnar.

Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. á og rekur verslunarhúsnæðið Smáralind sem er í Hagasmára 1 í Kópavogi.

„Félagið er í góðum rekstri og hefur sýnt stöðuga afkomu síðustu misseri, allt bendir því til að félagið muni halda áfram að styrkjast,“ segir í tilkynningunni.

„Með hliðsjón af því er það mat stjórnar Fasteignafélags Íslands ehf. að hag félagsins sé best borgið með því að halda áfram rekstri Smáralindar undir núverandi eignarhaldi enn um sinn, en að leita jafnframt annarra sölutækifæra síðar.“

Viðbót (uppfært kl. 15:40):

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að söluferlinu hafi nú verið lokað. Fasteignafélags Íslands, sem er eigandi að Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. er dótturfélag Regins, sem aftur á móti er dótturfélag Landsbankans.

Í tilkynningunni segir rekstur verslunarmiðstöðvarinnar hafi gengið vel það sem af er ári og staðið undir væntingum Fasteignafélags Íslands hf.  Handbært fé frá rekstri nemi 195 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins og hagnaður sama tímabils var 255 milljónir króna.

„Rekstur Smáralindar verður áfram með sama sniði og verið hefur en ljóst er jafnframt að vilji eigenda stendur til að selja Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf. þegar hagstæðari skilyrði skapast,“ segir í tilkynningunni.