Hátíðin Reykjavík Bacon Festival  verður haldin hátíðleg í þriðja sinn á Skólavörðustíg á í dag frá kl. 14-17.  Hátíðin er systurhátíð Blue Ribbon Bacon Festival ( http://blueribbonbaconfestival.com/ ), stærstu beikonhátíðar í heimi, sem haldin er árlega í Des Moines í Iowa.

Í fyrra mættu 10-12.000 manns á hátíðina svo von er á nokkru fjölmenni í ár. Hátíðin er sannkölluð matarhátíð fjölskyldunnar en átta veitingastaðir munu selja beikon innblásna rétti á 250 krónur í matarkofum og Ali mun bjóða upp á ókeypis beikon í matartjöldum auk þess að vera með veitingabás sem sérstaklega er ætlaður börnum þar sem boðið verður upp á beikonpylsur og ávaxtasafa. Það má því segja að þar sé sannkallað beikonbarnaþorp. Einnig verða leiktæki og hoppukastalar á Skólavörðustígnum fyrir börn þeim að kosntaðarlausu.

Reykjavík Beikon Festival er haldin af nokkrum vinum sem starfa á hinum ýmsu sviðum eins og lögmaður, matreiðslumeistari, verslunarstjóri, verkfræðingar, menningarfræðingur, gullsmíðameistari og tannlæknir.

Hátíðin er ekki haldin í gróðaskyni en yfirskrift hátíðarinnar er „Beikon er hjartans mál".  Allur ágóði af matsölunni mun renna til tækjakaupa á Hjartadeild Landspítalans. Beikon er eins og ástin, það þrá það allir og þú átt það skilið.

Saga Reykjavík Beikon Festival

Hátíðin hefur vaxið nokkuð að burðum frá árinu 2011 þegar nokkrir félagar buðu með þriggja tíma fyrirvara og í léttu gríni upp á 40 kg af beikoni fyrir gesti og gangandi á Skólavörðustígnum.  Árni Georgsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, segir þá hafa viljað koma bandarískum vinum sínum, sem standa að Blue Ribbon Bacon Festival, á óvart. Leikurinn var svo endurtekinn í fyrra með öllu meiri skipulagningu og í ár er öllu tjaldað til, - meira beikon og meira fjör.

Í febrúar sl. fóru hinir íslensku beikonbræður, klifjaðir íslenskum matvælum, á beikonhátíðina í Des Moines sem sérstakir heiðursgestir.  Þema hátíðarinnar var Ísland og var beikonvíkingunum boðið í móttöku til fylkisstjóra Iowa, Terry Branstad, þar sem fylkisstjórinn náðaði svín. Skipuleggjendur hátíðarinnar eiga það sameiginlegt að hafa starfað saman á siglingar- og útivistarnámskeið ÍTR í Nauthólsvík upp úr aldamótunum. Þeir hafa haldið hópinn síðan og í stað þess að syngja saman í karlakór þá skipuleggja þeir beikonhátíð og fara saman í hjólaferðir.

Einn matreiðslumeistari er í hópnum en annars samanstendur hann af verkfræðingum, markaðsmógúl, gullsmíðameistara, tannlækni, sölustjóra, framhaldsskólakennara og viðskiptafræðingi, lögmanni, menningarfræðingi, kvikmyndagerðarmanni og óperusöngvara.Nú í ár verða átta veitingastaðir með bása á hátíðinni og munu selja beikoninnblásna rétti auk þess sem Ali mun bjóða upp á ókeypis beikonsmakk á nokkrum básum og drykkir frá Vífilfelli munu slökkva þorsta hátíðargesta. Tvö tonn af beikoni eru tiltæk auk 600 kg af þorskhnökkum frá Sæmarki. Árni segir að mikill akkur sé í aðkomu Svínaræktarfélagsins að hátíðinni nú í ár og vonast eftir frekara samstarfi í framtíðinni. Helstu breytingar frá hátíðinni í fyrra eru þær að nú verður Skólavörðustígurinn þakinn veitingasölubásum svo fólk mun ekki þurfa að bíða í löngum röðum eftir beikonréttum eins og í fyrra.  Miðasölukerfi verður tekið í notkun og kostar skammturinn 250 krónur. Hver réttur er á stærð við lítinn forrétt.  Þremur miðasölubásum verður dreift um Skólavörðustíginn auk sölubáss fyrir boli, derhúfur, upptakara o.fl.

Veitingastaðirnir sem verða með sölubása: 3 frakkar, Sjávargrillið, Dómínós, Sakebarinn, Roadhouse, Snaps, Hótel Holt og Kolabrautin.