Flugfélagið Iceland Express seldi í hádeginu um tvö þúsund sæti á nokkrum mínútum, segir Matthías Imsland, forstjóri félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Klukkan tólf hófst sala á ferðum til nokkurra áfangastaða félagsins á tilboðsverði.

Netþjónninn bilaði hins vegar fljótlega, eða í um það bil klukkutíma, vegna mikils álags, en ætti nú að vera kominn í lag, segir Matthías. Þetta er í annað sinn sem kerfið bilar, segir hann, þegar félagið auglýsir tilboðsferðir.

Hann harmar það en segir að ekki hafi verið gert ráð fyrir svo miklum viðbrögðum. Tugir þúsunda manna hafi reynt að bóka sig í ferðir á sama tíma. Hádegið sé langbesti sölutíminn.