Í nýju frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra er meðal annars lagt til að frítekjumark fyrir fjármagnstekjur verði tvöfaldað úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur á ári. Samanlagt er gert ráð fyrir að breytingarnar þýði 1,6 til 2,0 milljarða tekjutap fyrir ríkissjóð á árinu sem er að líða.

Gert er ráð fyrir að tvöföldun frítekjumarksins sjálfs kosti ríkissjóð 770 milljónir í skertar tekjur á árinu sem er að líða, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingin taki gildi fyrir fjármagnstekjur yfirstandandi árs fyrir álagningu ársins 2021.

Í frumvarpinu eru jafnframt ákvæði um skattalega meðferð söluhagnaðar af frístundahúsnæði til eigin nota sem kostar 600 til 700 milljónir króna í skertar tekjur ríkissjóðs sem og frádráttar á móti innleystum gengishagnaðar af sérgreindum sparnaðarreikningum sem gert er ráð fyrir að kosti 50 til 300 milljónir króna í skertar tekjur á árinu.

Einnig er skilgreining á því til hvers frítekjumarkið nær til útvíkkað þannig að það nái einnig til arðstekna og söluhagnaðar félaga sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, en sú aðgerð er talin kosta 150 milljónir króna í minni tekjur ríkissjóðs.

Vilja hvetja til þátttöku almennings í fjárfestingum á hlutabréfamarkaði

Síðastnefnda breytingin þýðir að einstaklingar munu ekki þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt af samanlögðum vaxtatekjum og tekjum af félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði í formi arðs eða söluhagnaðar allt að 300 þúsund krónum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með þessu sé verið að jafna skattalega hvata milli fjárfestingarkosta sem annars vegar leiða af sér vaxtatekjur og hins vegar arðstekjur og söluhagnað.

Vonast er til þess að breytingin muni gera hlutabréfamarkaðinn að álitlegri fjárfestingakosti frá því sem verið hefur og þannig hvetja til aukinnar þátttöku almennings að því er segir í greinargerðinni.

Hagnaður af sölu sumarbústaða undanskilinn skatti og bótaskerðingum

Eins og áður segir er í frumvarpinu einnig sú breyting að afnumið er misræmi á skattlagningu söluhagnaðar auka íbúðar annars vegar og hins vegar frístundahúsnæðis. Þannig getur sala á frístundahúsnæði fallið undir skilyrði laga sem heimili undanþágu söluhagnaðarins til skattskyldra tekna.

Þau skilyrði eru að seljandi hafi átt húsnæðið í a.m.k. tvö ár og að heildarrúmál íbúðarhúsnæðis í eigu seljanda á söludegi sé ekki umfram 600 rúmmetra (1.200 rúmmetra ef hjón), nema ef um eigin not er að ræða en þá gildir stærðartakmörkunin ekki.

Hingað til hefur hagnaður af sölu frístundahúsnæðis talist til skattskyldra fjármagnstekna á söluári, sem hefur haft áhrif til skerðingar bóta þeirra sem iggja slíkar úr almannatreyggingum.

Það hefur hins vegar ekki gilt um sölu bótaþega á auka íbúðarhúsnæði sem er undir ákveðnum stærðarmörkum, eða 600 fermetrar (1.200 fermetrar ef um hjón er að ræða), en með breytingunum nú á að afnema þetta misræmi.

Gengishagnaður af áætluðum skólagjöldum eða leigu erlendis skattfrjáls

Önnur breyting sem er í frumvarpinu snýr að gengishagnaði, þar sem heimiluð er frádráttur af skattstofni gengishagnaðar upp að ákveðinni fjárhæð sem skilgreind er sem 15 þúsund SDR sem er mælieining á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggðri á körfu alþjóðlegra gjaldmiðla.

Eins og staðan er nú gæti einstaklingur sem leggur til að mynda inn 1.000 evrur inn á gjaldeyrisreykning þurft að greiða skatt af gengishagnaði, jafnvel þótt hann taki út sömu fjárhæð stuttu seinna, ef gengi krónunnar hefur lækkað í virði, þar sem skattskilin eru gerð upp í íslenskum krónum.

Þessi frádráttur er þó skilyrtur þannig að sýna verður fram á að höfuðstóllinn hafi verið lagður inn á reikninginn í þeim tilgangi að mæta fyrirhuguðum útgjöldum í erlendum gjaldeyri og að innlausnarandvirðinu hafi verið ráðstafað til greiðslu þeirra útgjalda.

Útgjöld sem falla undir ákvæðið eru einkum þau sem falla til vegna tímabundinnar dvalar erlendis, s.s. skólagjalda, leigu eða önnur sambærileg útgjöld.