*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 17. september 2020 08:12

Tvöfaldast í virði á fyrsta degi

Snowflake var skráð á markað í gær, samdægurs hækkuðu bréf félagsins um 125%. Buffett hefur fjárfest fyrir 80 milljarða.

Ritstjórn
Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, fjárfesti fyrir um 80 milljarða króna í Snowflake fyrir um viku.

Hlutabréf tæknifyrirtækisins Snowflake voru skráð á hlutabréfamarkað í gær. Um er að ræða stærsta frumútboð hugbúnaðarfyrirtækis í Bandaríkjunum frá upphafi. Hlutabréf félagsins hækkuðu um allt að 125% samdægurs og stóð hvert bréf í um það bil 270 dollurum hvert í kjölfarið.

Sjá einnig: Stór frumútboð framundan í vikunni

Félagið hafði áður gert ráð fyrir því að hvert hlutabréf myndi kosta 75-85 dollara í frumútboðinu. Hver hlutur var hins vegar seldur á 120 dollara sem er helmingi hærra verð en áður hafði verið gert ráð fyrir. Alls var selt um 28 milljón hluti og safnaði félagið því um 3,4 milljörðum dollara, jafngildi 463 milljarða króna samkvæmt grein WSJ um málið.

Sjá einnig: Hathaway setur 80 milljarða í tækni

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, tilkynnti að félagið myndi fjárfesta í Snowflake fyrir um viku síðan. Alls fjárfesti félagið 570 milljónum dollara, andvirði 80 milljörðum króna en auk Hathaway hafði tæknifyrirtækið Salesforce Ventures hyggst fjárfesta í Snowflake fyrir 33,3 milljarða króna.

Þegar hvert hlutabréf var virði 270 dollara var markaðsvirði Snowflake um 68 milljarðar dollara, andvirði 9.270 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Dropbox um 8,5 milljarðar dollara og markaðsvirði Spotify er um 44 milljarðar dollara.