Lindex á Íslandi, LDX19 ehf., átti afar gott ár í rekstri á síðasta ári, raunar það besta frá upphafi. Hagnaður ársins nam 219,5 milljónum króna og ríflega tvöfaldaðist frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn nam 104 milljónum króna. Velta félagsins nam 1,7 milljörðum og jókst um 21% milli ára. Eignir félagsins námu 1,2 milljörðum í lok árs og var eiginfjárhlutfall þess 33,4%.

Félagið er í eigu hjónanna Lóu Dagbjartar Kristjánsdóttur og Alberts Þórs Magnússonar. Í samtali við Viðskiptablaðið segist Lóa afar ánægð með uppskeruna, ekki síst í ljósi þeirrar óvissu sem við blasti í upphafi árs.

„Í upphafi fundum við fyrir verulegum samdrætti inni í verslununum svo við brugðumst við því með því að leggja allt kapp í að efla netverslunina og hófum að keyra heim pantanir. Þannig gátum við fært til starfsfólk úr verslununum, þar sem var orðið minna að gera, yfir í að sinna netpöntunum og heimkeyrslum," segir Lóa.

Hún segir þau hafa mætt áskorunum vegna vöruskorts en hafi sem betur fer ekki þurft að hækka verð. „Við höfum verið að glíma við vöruskort eins og aðrir og það hefur verið svolítið púsl en við erum mjög ánægð með að hafa ekki þurft að hækka verð líkt og er að gerast víða. Ég held að við höfum aðeins einu sinni þurft að hækka verð frá opnun en við höfum lækkað verð fjórum sinnum. Í okkar huga eru verðhækkanir síðasta vígið."

Nánar er rætt við Lóu í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Farið er yfir aðferðafræði og áhrif húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs
  • Fjallað er um hlutafjáraukningu og skráningaráform Alvotech.
  • Forstjóri Símans ræðir um fyrirhugaða sölu á Mílu.
  • Fjallað um samkeppnissátt Eimskips, hvata að baki henni og stöðuna í máli Samskipa.
  • Áhugaverð réttarfarslegs atriði blasa við í máli ÁTVR gegn aðilum sem standa að sölu áfengis gegnum netið.
  • Rætt við ráðgjafa Hagvangs um Siðferðisgáttina.
  • Nýr sölu- og markaðsstjóri er tekin tali um vistaskiptin frá Icelandair.
  • Óðinn fjallar um samkeppniseftirlitið og umræðu um verðlagningu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um hömlur á erlendar fjárfestingar.