Nyhedsavisen getur glaðst eftir að hafa slegið keppninautnum Urban við, segir í frétt danska viðskiptablaðsins Börsen í gær, en samkvæmt Gallupkönnun fór Nyhedsavisen naumlega fram úr fríblaðinu Urban meðal danskra lesenda.

Í nýliðnum ágústmánuði las 401 þúsund Nyhedsavisen og var það sjónarmun á undan Urban en lesendur þess mældust slétt 400 þúsund. Fríblaðið Nyhedsavisen, systurblað Fréttablaðsins, er sem kunnugt er í eigu íslenskra aðila en það er gefið út af Dagsbrún Media. Forstjóri útgáfufyrirtækisins er Gunnar Smári Egilsson. Börsen greinir einnig frá því að Nyhedsavisen státi af því, eitt danskra fríblaða, að konur lesa það frekar en karlar. Það þykir styrkja stöðu blaðsins í baráttunni um auglýsingar en auglýsingar eru eini tekjustofn fríblaðanna.

Bæði Nyhedsavisen og Urban lokuðu á meðan sumarfrí stóðu sem hæst í Danmörku og náði hvorugt þeirra sama lestri í ágúst og var fyrir sumarfrí. Morten Nissen Nielsen, framkvæmdastjóri Nyhedsavisen, er stoltur af því að Nyhedsavisen sló Urban út, jafnvel þótt litlu muni. "Við gleðjumst vegna þess að við komumst yfir Urban," segir hann í viðtali við Börsen.

"Tölur Gallupkönnunarinnar sýna," segir Börsen, "að Nyhedsavisen hefur náð til lesenda í hópi kvenna en hlutfall kvenna sem les Urban er lægra. Raunar er Nyhedsavisen eina fríblaðið sem höfðar meira til kvenna en karla." Morten Nissen Nielsen segir marga auglýsendur hafa reynt að ná til kvenna. Gömlu dagblöðunum hafi ekki tekist það, "svo við gleðjumst mjög vegna þess að okkur hefur tekist að höfða til þeirra. Það er ótrúlega mikilvægt að ná til kvenna," segir hann. Í ágúst lásu 205 þúsund konur Nyhedsavisen á móti 197 þúsund körlum. Lesendum fækkaði hins vegar um 36 þúsund frá því fyrir sumarfrí.

Thomas Rosendal, framkvæmdastjóri printguiden.dk, segir í Börsen að áhugi kvenna á Nyhedsavisen sé "hernaðarlegur" sigur í baráttunni um auglýsingar. Það skapi blaðinu tvímælalaust betri stöðu á markaðnum. Blaðið hafi náð til þeirra sem ákvarði kaup á ýmsum neyslu- og heimilisvörum auk kaupa á ferðaþjónustu.
Hvorki Nyhedsavisen né Urban eru þó mest lesin danskra fríblaða. Þar trónir á toppi blaðið 24timer en það lásu 472 þúsund manns í ágúst og Metroexpress fylgir því fast á eftir með 462 þúsund lesendur.