Hagnaður VÍS á þriðja fjórðungi þessa árs var ríflega tvöfalt hærri nú en á sama fjórðungi í fyrra. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nemur alls 6,7 milljörðum króna en á sama tíma í fyrra var afkoman fimmtán milljóna tap. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Iðgjöld tímabilsins námu 5.954 milljónum á fjórðungnum en það er tæplega 220 milljónum meira en á sama tíma í fyrra. Tjón tímabilsins námu 4.085 milljónum en það er 143 milljónum minna en á sama tíma í fyrra. Rekstarkostnaður var 1.225 milljónir og hækkar um 50 milljónir milli ára. Hagnaður á fjórðungnum var 2.231 milljónir.

Heildartekjur fyrstu níu mánaða ársins eru aftur á móti tæplega fimm milljörðum hærri nú en í fyrra. Helgast það af því að fjárfestingatekjur eru að skila 4,5 milljörðum meira sökum gangvirðisbreytinga þeirra.

„Afkoma af tryggingarekstrinum á fjórðungnum nam 628 milljónum og er í takt við væntingar okkar. Tjónahlutfall fjórðungsins var 68,6% og hefur ekki verið lægra í þrjú ár. Samsett hlutfall fjórðungsins var 90,5% en var 94,5% á sama tíma í fyrra. Gefin var út afkomuspá í byrjun árs sem er enn í gildi ─ og áfram er gert ráð fyrir að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 97-99%,“ er haft eftir Helga Bjarnasyni, forstjóra félagsins, í tilkynningunni.

Eignir félagsins í lok september voru metnar 60.758 milljónir en þar af voru fjárfestingaeignir metnar á 43.793 milljónir. Skuldir nema 40 milljörðum rúmum en þar af nema vátryggingaskuldir 32,5 milljörðum. Fjárfestingaeignir félagsins hafa aldrei verið meiri.