*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 22. nóvember 2004 18:53

Tvöfalt fleiri ferðamenn frá Japan

Ritstjórn

Fjöldi ferðamanna frá Japan til Íslands hefur tvöfaldast frá árinu 2001, en sendiráð Íslands var opnað í Tókýó þann 25. október það ár. Frá áramótum hafa um 6.038 ferðamenn komið til Íslands frá Japan, en allan áratuginn frá 1990 til 2000 var ferðamannastraumur frá Japan nokkuð stöðugur eða um 2.500 ferðamenn á ári. Á milli áranna 2003 og 2004 jókst ferðamannastraumur frá Japan um 51%. Þessi mikla aukning á sér stað þrátt fyrir að dregið hafi mikið úr utanlandsferðum Japana eftir atburðina 11. september 2001.

Áætla má að aukinn fjöldi ferðamanna frá Japan milli 2003 og 2004 skili þjóðarbúinu um 500 milljónum króna í viðbótarveltu.

Uppskera af markaðsstarfi

"Við erum að uppskera það sem sáð var með margskonar kynningum og samstarfsverkefnum,? segir Ingimundur Sigfússon, í viðtali við Stiklur, vefrit utanríkisráðuneytisins, en hann var sendiherra Íslands í Japan frá opnun sendiráðsins þar til Þórður Ægir Óskarsson tók við af honum í ágúst.
?Opnun sendiráðs Íslands í Tókýó og sendiráðs Japans í Reykjavík hefur meðal annars skilað sér í auknum samskiptum og aukinni þekkingu og
áhuga á samstarfi á milli ríkjanna. Eitt af höfuðmarkmiðunum með stofnun sendiráðs í Tókýó var að efla ferðamannastraum til Íslands og við höfum unnið markvisst að því í mjög góðu og ánægjulegu samstarfi við Flugleiðir og
ferðaskrifstofur. Húsnæði sendiráðsins hentar mjög vel fyrir landkynningar.?

Ingimundur segir að Flugleiðir hafi verið mjög drífandi í sínu markaðsstarfi í Japan. "Fyrsta beina flugið milli Japans og Íslands var farið árið 2003,
en á því ári voru þrjú bein flug á milli landanna. Á þessu ári verður flogið beint fjórum sinnum og takmarkið er bein flug verði átta á næsta ári.?

Almennt taka Japanir stutt frí og vilja upplifa mikið og njóta þæginda á ferðalögum. Norðmenn áætla að hver ferðamaður frá Japan verji sem samsvarar um 50.000 íslenskum krónum á dag að meðaltali á ferðalagi um
Noreg. Engin ástæða er til að ætla annað en upphæðin sé svipuð fyrir japanska ferðalanga á Íslandi. Það sem af er þessu ári hefur fjöldi ferðamanna frá Japan aukist um helming frá síðasta ári. Ef miðað er við að hver ferðamaður dvelji á Íslandi í fimm daga má áætla að viðbótartekjur vegna komu þeirra nemi um 500 milljónum króna. ?Japanir eru ekki aðeins vinsælir ferðamenn vegna þess að þeir kaupa mikla þjónustu heldur einnig vegna þess að þeir hafa einlægan áhuga á landi og þjóð og þeir ferðast töluvert utan hefðbundins ferðamannatíma?, segir Ingimundur. "Japanir eru til að mynda heillaðir af norðurljósunum okkar og því eru tækifæri til að auka enn frekar nýtingu á gistirýmum á veturna með því að fjölga japönskum ferðamönnum?.

Eins og áður segir tók Þórður Ægir Óskarsson við sendiherrastöðunni í ágúst. Í sendiráðinu starfa einnig Benedikt Höskuldsson, sem er viðskiptalífinu af góðu kunnur, m.a. sem fyrrum forstöðumaður
Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, Dagný Hulda Einarsdóttir, Aikio Hasagawa og Maki Onjo, sem er sérstakur viðskiptafulltrúi í sendiráðinu.