Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) mótmælir því að gjaldtakan vegna listaverkasölu sé tvöfalt hærri hér á landi en gert er ráð fyrir í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í fréttabréfi SVÞ kemur fram að listaverkasalar eiga að innheimta 10% gjald af flestum gömlum listaverkum sem seld eru á uppboðum og gjaldið látið renna til höfunda listaverkanna eða erfingja þeirra. Þetta er samkvæmt breytingu á lögum um verslunaratvinnu sem taka gildi um áramótin. Lögin byggja á tilskipun ESB sem gerir þó aðeins ráð fyrir 4% gjaldi.

SVÞ telja að samkvæmt lögunum eigi að leggja 10% fylgiréttargjald á listaverk sem seld eru á listaverkauppboðum fyrir upphæð sem svarar til allt að 3.000 evra. Flest seldra verka eru innan þessara marka. Ef listaverkin eru seld fyrir hærri upphæðir beri þau stiglækkandi hlutfall fylgiréttargjalds.Gömul listaverk ganga oft kaupum og sölum mörgum sinnum og geta því erfingjar höfunda þessara listaverka hagnast vel á verkum forfeðra sinna. Spyrja má hvað réttlætir það?

Svo virðist sem lögin hafi verið hönnuð með hagsmuni höfunda og erfingja þeirra í huga. Eftir því sem næst verður komist er fylgiréttargjaldið í öllum öðrum Evrópugjöldum 4-5% eins og tilskipun ESB gerir ráð fyrir. Þegar leitað var skýringa á þessum mismun var því borið við að í Danmörku væri innheimtur virðisaukaskattur af söluþóknun listaverkasala sem ekki tíðkist hér. Með þeim rökum er verið að bera saman 10% fylgiréttargjald af heildarverði listaverksins hér á landi og hins vegar virðisaukaskatt af söluþóknun listaverkasala í Danmörku. Ekki verður séð hvernig þessi samanburður fær staðist.

Hin óvenju háa gjaldtaka sem beitt er hér á landi gæti leitt til þess að eigendur listaverka sem vilja selja verk sín reyni að komast hjá því að selja verk sín á uppboðum þar sem innheimt er 10% fylgiréttargjald og sniðgangi viðurkennda listaverkasala. Það hefði í för með sér að höfundar og erfingjar þeirra fengju engan skerf af sölunni. Eftir því sem skattlagning og gjaldtaka er hærri aukast freistingarnar við að finna leiðir til undanskota.

Listaverkasalar hafa bent á að flestir þeirra sem selja listaverk eru eldri borgarar sem hafa fjárfest í listaverkum á yngri árum og selja til að drýgja tekjurnar á efri árum.