Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstaréttardómari telur mikilvægt fyrir trúverðugleika Benedikts Bogasonar, núverandi dómara við réttinn, að hann svari spurningum sem Jón bar upp við hann í Morgunblaðinu í gær.

Þá telur Jón Steinar óheppilegt að ákæruvaldið sýni tvöfalt siðgæði ætli það sér ekki að aðhafast frekar í máli Benedikts, enda hafi Magnús Thoroddsen verið látinn taka pokann sinn árið 1989 þrátt fyrir að hafa ekki gerst brotlegur við lög. Það hafi dugað til brottvikningar hans að hann hafi hagað sér með þeim hætti að rýrði traust hans sem dómara við æðsta dómstól landsins.

Jón Steinar gerir að auki að umtalsefni hversu áberandi það sé orðið að dómstólarnir láti almenningsálit hafa áhrif á störf sín. Slíkt hljóti að vera áhyggjuefni og í ósamræmi við hlutverk og skyldur dómara.

VB sjónvarp ræddi við Jón Steinar.