Rúmlega tvöföld eftirspurn var eftir hlutum í Síldarvinnslunni hf. við skráningu félagsins á aðalmarkað. Gilti það jafnt um almenning og fagfjárfesta.

Útboð félagsins hófst á mánudag og lauk á miðvikudag. Söluandvirði hluta nam 29,7 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Síldarvinnslunni kemur fram:

  • Nær 6.500 áskriftir bárust fyrir um 60 milljarða króna.
  • Í tilboðsbók A var endanlegt útboðsgengi 58 krónur á hlut. Áskriftir á útboðsgengi í tilboðsbók A eru ekki skertar undir 1 milljón króna að kaupverði. Skerðing áskrifta á útboðsgengi í tilboðsbók A er að öðru leyti hlutfallsleg.
  • Í tilboðsbók B var endanlegt útboðsgengi 60 krónur á hlut. Skerðing áskrifta var í samræmi við skilmála útboðsins. Fjárfestar sem tilgreindu lægra útboðsgengi fengu ekki úthlutað.
  • Söluandvirði nam 29,7 milljörðum króna.

Fjöldi hluthafa í Síldarvinnslunni verður tæplega 7.000 í kjölfar útboðsins.

Áætlað er að viðskipti með hlutabréf í Síldarvinnslunni hefjist 27. maí 2021 en Nasdaq Iceland mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með hlutabréfin með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf., segir í tilkynningu.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga almennings og fagfjárfesta á sjávarútvegi sem kristallast í niðurstöðum útboðsins. Ég vil bjóða nýja hluthafa velkomna í Síldarvinnsluna og þakka það mikla traust sem þeir hafa sýnt félaginu og starfsfólki þess. Með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll verður Síldarvinnslan með þá sérstöðu að vera eina skráða félagið með höfuðstöðvar á landsbyggðinni.“