Rúmlega tvöföld eftirspurn var eftir hlutum í Síldarvinnslunni hf. við skráningu félagsins á aðalmarkað. Gilti það jafnt um almenning og fagfjárfesta en útboð félagsins hófst á mánudag og lauk á miðvikudag. Þetta kemur fram á vef Landsbankans en bankinn var umsjónaraðili útboðsins. Söluandvirði hluta nam 29,7 milljörðum króna.

Í útboðinu voru 447,6 milljónir áður útgefinna hluta boðnir til sölu en sökum mikillar eftirspurnar nýttu hluthafar sér heimild til að fjölga seldum hlutum um 51 milljón hluta. Áskriftir voru samþykktar fyrir tæplega 499 milljónir hluta eða rúmlega 29% af heildarhlutafé félagsins. Eftir útboðið verða hluthafar félagsins um 7.000 talsins.

Í tilboðsbók A var endanlegt útboðsgengi 58 krónur á hvern hlut en áskriftir undir einni milljón króna verða ekki skertar. Bókin var opin þeim sem buðu 100 þúsund krónur til 20 milljónir króna. Áskriftir yfir milljón verða skertar hlutfallslega. Í tilboðsbók B var endanlegt útboðsgengi 60 krónur á hlut og fá þeir sem buðu undir því engu úthlutað.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga almennings og fagfjárfesta á sjávarútvegi sem kristallast í niðurstöðum útboðsins. Ég vil bjóða nýja hluthafa velkomna í Síldarvinnsluna og þakka það mikla traust sem þeir hafa sýnt félaginu og starfsfólki þess,“ er haft eftir Gunnþóri Ingvarssyni, forstjóra SVN, í tilkynningu.

Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða er 20. maí næstkomandi og verða hlutir afhentir 26. maí. Áætlað er að viðskipti með bréf félagsins muni hefjast degi síðar á aðalmarkaði.