Ferðaþjónusta hér á landi hefur vaxið gífurlega á síðustu árum. Þá hefur eðli ferðaþjónustunnar orðið fjölbreyttara með tímanum, t.d. hefur umfang fyrirtækja sem tengjast afþreyingu og tómstundum aukist verulega.

Ferðaþjónustan er nú þriðji stærsti útflutningsliður landsins á eftir sjávarútvegi og álframleiðslu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Landsbankans um þróun fjárfestingar og reksturs ferðaþjónustunnar.

Skýrslan var kynnt í síðustu viku og lítillega var fjallað um hana hér í Viðskiptablaðinu.

Afkoma fyrirtækja sem tengjast ferðaþjónustu hefur batnað nokkuð eftir bankahrunið 2008.

Í skýrslu Landsbankans kemur þó fram að hlutfallslegur vöxtur stærri fyrirtækja hafi aukist meira en hjá þeim minni. Hins vegar drógust skuldir ferðaþjónustunnar saman um 21% á milli áranna 2008 og 2010, sem má helst rekja til endurútreiknings ólöglegra erlendra lána. Þá hafa mörg ferðaþjónustufyrirtæki tekjur að stórum hluta í erlendri mynt sem hjálpar þeim mikið við reksturinn í landi veikrar krónu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.