Uppbygging hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla hefur gengið hægar en til stóð síðustu misseri, en er þó komin á ágætis skrið.

Í dag er alls 91 hraðhleðslutengill á landinu öllu, þar af 57 af fyrstu kynslóð í einföldum 50kW stöðvum og 13 af annarri kynslóð í alls átta 150kW stöðvum, auk 21 tesla hraðhleðslutengla á 5 stöðum, sem flestir geta gefið 250kW hver. Til stendur að reisa 34 stöðvar þeim til viðbótar, með að minnsta kosti 76 tengla, á næstunni, en sé gert ráð fyrir 4 tenglum á hverri Tesla stöð verða þeir 91.

Síaukin þörf á fleiri og öflugri stöðvum
Þrátt fyrir tafir nýverið hefur uppbygging hraðhleðslunetsins gengið hratt síðustu ár, enda aðeins sjö ár síðan fyrsta slíka stöðin reis hér á landi.

Fyrstu kynslóðar stöðvarnar eru hins vegar komnar þónokkuð til ára sinna í tæknilegu tilliti í samanburði við þær nýjustu, sem geta hlaðið allt að sjöfalt hraðar, og tvo bíla í einu (þá skiptist aflið að vísu í tvennt).

Með stóraukinni rafbílaeign landsmanna síðustu ár er orðið afar þétt setið á köflum um gömlu 50kW-stöðvarnar, sem aðeins geta hlaðið einn bíl í einu og geta verið á annan klukkutíma að hlaða bíl með stóra rafhlöðu úr 10% í 80% – en eftir það fer að hægja verulega á hleðslunni og því almennt ekki ráðlagt að hlaða umfram það í hraðhleðslu.

Nýrri rafbílar eru í ofanálag farnir að geta tekið við hraðari hleðslu en þeir eldri. Árið 2019 gerði Orkusjóður samninga um veitingu styrkja upp á 227 milljónir króna fyrir uppsetningu 43 150kW stöðva. Stefnt var að því að flestar eða allar stöðvarnar yrðu komnar upp og í notkun á þessu ári, en heimsfaraldurinn og flækjustig við framkvæmd uppsetningar víðsvegar um landið hefur valdið þónokkrum töfum.

Styrkveitingar gætu runnið út
Í samtali við blaðamann hafa uppsetningaraðilar meðal annars kvartað yfir hægagangi hjá sumum orkuveitum, sem draga þurfa öflugar raflagnir á staðinn áður en hægt er að setja upp stöð, auk þess sem afhending búnaðarins sjálfs hefur í einhverjum tilfellum tafist.

Allir stefna þeir þó að því að klára uppsetningu þeirra stöðva sem ákveðið hefur verið að reisa á næsta ári hið síðasta, og talsmaður Orkusjóðs segist ætlast til þess að styrkþegar klári uppsetningu innan þess tíma, enda fari styrkveitingar að renna út.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & Iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .