Umfang afleiðuviðskipta bankanna tvöfaldaðist á síðasta ári, ef marka má tölur úr ársreikningum stóru bankanna þriggja. Nafnverðsfjárhæðir vegna stöðutöku bankanna í afleiðum námu 213 milljörðum króna í upphafi síðasta árs. Um síðustu áramót var þessi upphæð 400 milljarðar króna.

Í lok síðasta árs var nafnverðsfjárhæð afleiðna mest hjá Arion banka. Nafnverð tengd stöðum bankans í afleiðum voru 170 milljarðar króna og uxu um heil 233 prósent á árinu. Næstmestur vöxtur var hjá Landsbankanum, eða 149%. Vöxtur nafnverða tengdum stöðum í afleiðum var 18% hjá Íslandsbanka.

Verja sig gegn sveiflum

Nafnverð tengd verðbréfaafleiðum var 60 milljarðar króna um síðustu áramót og hafði vaxið um 28% á árinu. Verðbréfaafleiður eru hins vegar minnsti hlutinn af afleiðuviðskiptum bankanna.

Nafnverð tengd framvirkum gjaldeyrissamningum námu 138 milljörðum króna og nafnverð tengd vaxta- og gjaldmiðlavaxtaskiptasamningum námu 202 milljörðum króna í lok síðasta árs. Umfang framvirkra gjaldeyrissamninga jókst um 163% á árinu og umfang vaxta- og gjaldmiðlavaxtaskiptasamninga jókst um 77%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .