*

fimmtudagur, 28. október 2021
Erlent 7. apríl 2021 12:19

Tvöföldun í hópi milljarðamæringa

Davíð Helgason hefur samkvæmt Forbes bæst í hóp Íslendinga sem eiga meira en milljarð dollara.

Jóhann Óli Eiðsson
Heiða Halls

Fjöldi Íslendinga á lista Forbes yfir milljarðamæringa þessa heims tvöfaldaðist á liðnu ári og eru þeir nú tveir talsins. Davíð Helgason, einn stofnenda Unity, bættist í mengi sem áður hafði aðeins innihaldið Björgólf Thor Björgólfsson.

Samkvæmt lista Forbes er Björgólfur Thor í 1.444 sæti listans og er auður hans metinn á rúmlega 2,2 milljarða dollara. Davíð er að finna á listanum rúmlega þúsund sætum neðar, nánar tiltekið í sæti 2.674, og er áætlað mat á eignum hans um milljarður dollara.

Unity er tölvuleikjaframleiðandi sem Davíð stofnaði ásamt öðrum árið 2004 í Kaupmannahöfn. Í upphafi var markmiðið að framleiða eigin tölvuleik en það gekk ekki sem skildi. Aftur á móti áttuðu þeir sig á því að grunnurinn gæti nýst öðrum leikjaframleiðendum og byggja margir af vinsælustu leikjum heimsins á honum. Má þar á meðal nefna Pokemon Go og Among Us.

Félagið var tekið til viðskipta í kauphöll í New York síðasta haust en Davíð á um 4% hlut í því. Hann var forstjóri þess til ársins 2014 en hefur síðan þá átt sæti í stjórn þess. Eftir skráningu þess á markað hafa auðæfi Davíðs vaxið skarpt.

Stikkorð: Forbes Davíð Helgason