Íslenskir ferðaskipuleggjendur fengu alls 3,2 milljarða króna frá erlendum ferðamönnum með greiðslukortun í maímánuði og jókst velta í þessari tegund ferðaþjónustu um 92% frá sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Rannsóknarseturs verslunarinnar .

Þar kemur fram að erlendir ferðamenn greiddu alls með kortum sínum 13,1 milljarð króna í maí sem er 46,8% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Einnig jókst greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann um 8% milli ára.

Hæsti útgjaldaliðurinn var greiðslur til innlendra ferðaskipuleggjenda vegna ferða um landið. Þá nam erlend kortavelta vegna gistingar 2,6 milljörðum króna og jókst um 44% milli ára. Erlend kortavelta í íslenskum verslunum nam 1,6 milljörðum króna sem er 14% vöxtur frá sama mánuði í fyrra.

Þær verslanir sem eru í mestri sókn meðal erlendra ferðamanna eru gjafa- og minjagripaverslanir. Erlend kortavelta þessara verslana í maí var 227 millj. kr. sem er 65% hærri upphæð en í sama mánuði i fyrra.