*

föstudagur, 15. janúar 2021
Innlent 30. september 2019 15:22

Tvöföldun veltu gekk eftir

Hagnaður Kaptio ehf. nærri fimmfaldaðist á síðasta ári en framkvæmdastjórinn sér fram á áframhaldandi vöxt.

Ritstjórn
Arnar Laufdal Ólafsson segir nauðsynlegt í miklum vexti að vera stöðugt að endurskoða reksturinn svo kostnaðurinn vaxi ekki í sama takti.
Haraldur Guðjónsson

Arnar Laufdal Ólafsson, annar stofnandi og framkvæmdastjóri Kaptio ehf., segir félagið áfram stefna á mikinn vöxt á næstu árum, en athygli vekur að hagnaður þess nálega fimmfaldaðist á milli ára á síðasta ári.

„Það er ýmislegt í deiglunni sem ég get ekki talað um núna, bæði nýjar lausnir og frekari útvíkkun á eldri lausnum, og þar með fleiri viðskiptavinir og stærri markaðir sem við erum að skoða. Á síðasta ári vorum við að fá inn nokkra stærri viðskiptavini, en við náðum einnig að halda vel utan um reksturinn þannig að á meðan tekjurnar uxu umtalsvert vorum við að halda kostnaðinum í þeim takti, að hann væri ekki að aukast í sama hlutfalli og tekjurnar, “ segir Arnar.

Líkt og fram kom í viðtali við Arnar í Viðskiptablaðinu undir lok síðasta árs stefndi félagið að tvöföldun í veltu næstu árin, sem gekk eftir í fyrra.

„Við erum mjög sátt við það hvernig árið 2018 kom út, en það eru mjög spennandi tímar fram undan í þessum geira. Við erum að sjá fram á enn frekari vöxt í sölu á hugbúnaði okkar fyrir ferðaþjónustuaðila og ferðaskipuleggjendur bæði úti í Kanada, sem og í Bandaríkjunum. Jafnframt sjáum við meiri vöxt í Bretlandi og svo erum við líka að sjá ákveðin tækifæri úti í Ástralíu og víðar.“

Kaptio ehf, sem Arnar stofnaði ásamt Ragnari Ægi Fjölnissyni, selur stafræn bókunar-, tilboðs- og samskiptakerfi til fyrirtækja í ferðaiðnaði. Aðalvara fyrirtækisins er Kaptio Travel, sem er byggt ofan á sölukerfið Salesforce. Það er notað í fjölmörgum ólíkum geirum, en lausn Kaptio var sú fyrsta sem miðaði sérstaklega við að þjóna ferðaþjónustunni.

„Við erum að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru að selja ferðavörur, en þessi fyrirtæki eru að finna sig núna í öðruvísi umhverfi en áður, þar sem viðskiptavinir þeirra vilja geta nálgast þá í gegnum hinar ýmsu og ólíku leiðir. Það er í gegnum netsíður, en líka í gegnum samfélagsmiðla, svo vilja þeir líka nálgast þá í gegnum símaver og svo framvegis. Þannig getur lausn okkar haldið utan um allt sem snertir viðskiptavininn alveg frá því að hann byrjar að hafa samband og þangað til búið er að afhenda vöruna til hans.“ segir Arnar.

„Við erum einnig að hjálpa þeim með reksturinn svo þessi lausn nær ansi vítt inn í starfsemi fyrirtækjanna. Til dæmis gerir hún ferðaþjónustufyrirtækjunum kleift að halda utan um hvernig þær verðleggja vörur sínar eftir þessum mismunandi leiðum, og eftir því hverjir viðskiptavinirnir eru. Það er hvort þeir koma í gegnum netið, eða annað, og líka eftir því hvort það séu einhverjir sérstakir viðskiptasamningar þarna á bakvið.“

Arnar segir mikilvægt í svona rekstri að vinna náið með fyrirtækjunum sem þau eru í viðskiptum við og því hafi þurft að byggja upp starfstöðvar víða um heim.

„Að ná góðum árangri í rekstri snýst þó aðallega um það að samhliða því að vera stöðugt að auka söluna þarf líka stöðugt að vera að skoða reksturinn hjá sér, bæði til að halda aftur af kostnaði en líka að endurskipuleggja sig þegar við erum að vaxa svona hratt. Þegar starfsmannafjöldinn eykst úr einhverjum 30 manns í 65 þá þarf stöðugt að skoða gagnrýnum augum hvað verið er að gera og bregðast við aðstæðum.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.